Matvælastofnun hefur unnið tillögu að breyttu rekstrarleyfi fyrir ÍS 47 ehf. vegna sjókvíaeldis í Önundarfirði. ÍS 47 ehf. er með rekstrarleyfi fyrir 1.000 tonna hámarkslífmassa á eldi á regnbogasilungi og þorski í Önundarfirði sem gefið var út 8. janúar 2021.

ÍS 47 ehf. var í eigu Gísla Jóns Kristjánssonar og Friðgerðar Ómarsdóttur frá árinu 2003 en komst í eigu ÍSEF snemma árs 2021, eignarhaldsfélags í eigu hóps íslenskra fjárfesta sem hefur að meginmarkmiði að byggja upp eignasafn í fiskeldi og tengdri starfsemi.

Tillaga að breytingu á rekstrarleyfi byggir á tilkynningu ÍS 47 ehf. frá 21. október 2022 um tegundabreytingu og ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 7. febrúar 2023 um tegundabreytingu.

Breyting á rekstrarleyfinu heimilar eldi á frjóum laxi í Önundarfirði og heimild til eldis á þorski verður felld úr leyfinu samhliða breytingunni. Hámarkslífmassi og staðsetningar eldissvæða verða óbreytt, en eldisskilyrði breytast í samræmi við tilkomu frjós lax í rekstrarleyfið.

Í samræmi við 24. gr. reglugerðar nr. 540/2020 helst gildistími rekstrarleyfanna óbreyttur og er til 8. janúar 2036.

Frestur til að skila inn athugasemdum við tillöguna er til 12. janúar 2024.