„Það eru alls konar væntingar en við ætlum bara að vera tilbúnir ef og þegar leyfi fæst. Það fer náttúrlega eftir hættuástandinu og öðrum slíkum þáttum,“ segir Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins Vísis í Grindavík, spurður um horfurnar varðandi það að hefja starfsemi í bænum að nýju.

Um stöðuna hjá Vísi segir Pétur allan húsakost og tæki vera í lagi. Rafmagn og hiti sé á byggingum félagsins og skolplagnir séu virkar. Vélstjórateymi hafi verið að störfum í fyrirtækinu.

„Það eina sem okkur vantar núna er kalda vatnið,“ segir Pétur. Kalt vatn hafi farið af hluta bæjarins en að ekki muni reynast flókið að koma því á aftur.

Bærinn opnast æ meira

Þannig er nánast allt til reiðu til að byrja fiskvinnslu Vísis aftur í Grindavík. Hlé var gert á henni þegar bærinn var rýmdur föstudagskvöldið 10. nóvember í kjölfar gríðarlegs framhlaups kviku undir bæinn og til sjávar þannig að allt lék á reiðiskjálfi og óttast var að jafnvel myndi hefjast eldgos þar í byggðinni hvað úr hverju. Undanfarna viku hefur skjálftavirknin legið niðri og Almannavarnir hleypt íbúum og starfsfólki fyrirtækja í síauknum mæli inn í bæinn í dagsbirtu til að huga að verðmætum og kanna ástand eigna sinna.

Stefndu til Hafnarfjarðar

Starfsemi Vísis eins og annarra fyrirtækja í Grindavík tók eðlilega miklum breytingum eftir rýmingu bæjarins.

„Menn drógu úr veiðum og breyttu mynstrinu á því öllu. Það hægði á öllu saman,“ segir Pétur um áhrifin á Vísi.

Bátar og skip úr Grindavík hafa meðal annars landað afla í Hafnarfirði síðan útgerðirnar þurftu að yfirgefa heimabæinn.

Gekk vel að koma fólki fyrir

„Við tókum skipin þegar þau kláruðu túrana sína á meðan menn voru að átta sig. Svo kom náttúrlega bræla og þess vegna voru allir þar. Svo erum við að vinna saltfiskinn í Þorlákshöfn,“ segir Pétur. Menn séu enn að að átta sig á stöðunni.

„Síðustu tvær vikur fóru í að koma fólkinu fyrir og bjarga verðmætum. Það gekk ágætlega og núna er verið að hafa fasteignirnar og tækin þannig að hægt sé að grípa til þeirra ef við fáum leyfi,“ segir Pétur.

Rekstrarstöðvun helsta tjónið

Vísir er dótturfélag Síldarvinnslunnar sem fyrir helgi skilaði uppgjöri vegna rekstursins á þriðja ársfjórðungi. Í tilkynningu með uppgjörinu fjallaði Gunnþór B. Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, um stöðuna í Grindavík.

Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar.
Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Jarðhræringar á Reykjanesi hafa stöðvað tímabundið bolfiskvinnslu félagsins í Grindavík. Starfsmönnum hefur tekist að bjarga öllum verðmætum sem bundin voru í birgðum og hluta lausafjár. Engar sjáanlegar skemmdir hafa komið í ljós á eignum félagsins og enn sem komið er hefur ekki orðið vart við umfangsmikið tjón utan rekstrarstöðvunar bolfiskvinnslunnar,“ lýsti forstjórinn stöðunni.

Hættan virðist á undanhaldi

Gunnþór sagði að vegna mikillar óvissu hjá starfsfólki Vísis eins og öllum íbúum Grindavíkur hefði verið lögð áhersla á að hafa samskipti við fólk og styðja það með upplýsingagjöf eins og frekast væri kostur.

„Sem fyrr segir er ekki útséð með hvert endanlegt tjón félagsins verður vegna þessara atburða enda ríkir enn óvissa með framvindu mála. Vísbendingar eru um að hættan í Grindavík sé á undanhaldi og hægt verði að hefja vinnu við að koma starfsemi félagsins í fyrra horf,“ sagði forstjórinn í tilkynningu Síldarvinnslunnar.

„Það eru alls konar væntingar en við ætlum bara að vera tilbúnir ef og þegar leyfi fæst. Það fer náttúrlega eftir hættuástandinu og öðrum slíkum þáttum,“ segir Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins Vísis í Grindavík, spurður um horfurnar varðandi það að hefja starfsemi í bænum að nýju.

Um stöðuna hjá Vísi segir Pétur allan húsakost og tæki vera í lagi. Rafmagn og hiti sé á byggingum félagsins og skolplagnir séu virkar. Vélstjórateymi hafi verið að störfum í fyrirtækinu.

„Það eina sem okkur vantar núna er kalda vatnið,“ segir Pétur. Kalt vatn hafi farið af hluta bæjarins en að ekki muni reynast flókið að koma því á aftur.

Bærinn opnast æ meira

Þannig er nánast allt til reiðu til að byrja fiskvinnslu Vísis aftur í Grindavík. Hlé var gert á henni þegar bærinn var rýmdur föstudagskvöldið 10. nóvember í kjölfar gríðarlegs framhlaups kviku undir bæinn og til sjávar þannig að allt lék á reiðiskjálfi og óttast var að jafnvel myndi hefjast eldgos þar í byggðinni hvað úr hverju. Undanfarna viku hefur skjálftavirknin legið niðri og Almannavarnir hleypt íbúum og starfsfólki fyrirtækja í síauknum mæli inn í bæinn í dagsbirtu til að huga að verðmætum og kanna ástand eigna sinna.

Stefndu til Hafnarfjarðar

Starfsemi Vísis eins og annarra fyrirtækja í Grindavík tók eðlilega miklum breytingum eftir rýmingu bæjarins.

„Menn drógu úr veiðum og breyttu mynstrinu á því öllu. Það hægði á öllu saman,“ segir Pétur um áhrifin á Vísi.

Bátar og skip úr Grindavík hafa meðal annars landað afla í Hafnarfirði síðan útgerðirnar þurftu að yfirgefa heimabæinn.

Gekk vel að koma fólki fyrir

„Við tókum skipin þegar þau kláruðu túrana sína á meðan menn voru að átta sig. Svo kom náttúrlega bræla og þess vegna voru allir þar. Svo erum við að vinna saltfiskinn í Þorlákshöfn,“ segir Pétur. Menn séu enn að að átta sig á stöðunni.

„Síðustu tvær vikur fóru í að koma fólkinu fyrir og bjarga verðmætum. Það gekk ágætlega og núna er verið að hafa fasteignirnar og tækin þannig að hægt sé að grípa til þeirra ef við fáum leyfi,“ segir Pétur.

Rekstrarstöðvun helsta tjónið

Vísir er dótturfélag Síldarvinnslunnar sem fyrir helgi skilaði uppgjöri vegna rekstursins á þriðja ársfjórðungi. Í tilkynningu með uppgjörinu fjallaði Gunnþór B. Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, um stöðuna í Grindavík.

Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar.
Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Jarðhræringar á Reykjanesi hafa stöðvað tímabundið bolfiskvinnslu félagsins í Grindavík. Starfsmönnum hefur tekist að bjarga öllum verðmætum sem bundin voru í birgðum og hluta lausafjár. Engar sjáanlegar skemmdir hafa komið í ljós á eignum félagsins og enn sem komið er hefur ekki orðið vart við umfangsmikið tjón utan rekstrarstöðvunar bolfiskvinnslunnar,“ lýsti forstjórinn stöðunni.

Hættan virðist á undanhaldi

Gunnþór sagði að vegna mikillar óvissu hjá starfsfólki Vísis eins og öllum íbúum Grindavíkur hefði verið lögð áhersla á að hafa samskipti við fólk og styðja það með upplýsingagjöf eins og frekast væri kostur.

„Sem fyrr segir er ekki útséð með hvert endanlegt tjón félagsins verður vegna þessara atburða enda ríkir enn óvissa með framvindu mála. Vísbendingar eru um að hættan í Grindavík sé á undanhaldi og hægt verði að hefja vinnu við að koma starfsemi félagsins í fyrra horf,“ sagði forstjórinn í tilkynningu Síldarvinnslunnar.