Rússneska hafrannsóknastofnunin (PINRO) hefur birt niðurstöður rannsókna sinna sem sýna að tíu sinnum meira er af snjókrabba en kóngakrabba í Barentshafi. Þetta hefur komið bæði rússneskum og norskum vísindamönnum á óvart.

Bæði snjókrabbinn og kóngakrabbinn eru nýjar tegundir í Barentshafi. Rússneskir vísindamenn fluttu kóngakrabbann í rússneska lögsögu Barentshafs á sjöunda áratugnum. Síðan þá hefur stofninn vaxið mikið og á síðustu árum teygt sig langt inn í norska lögsögu.

Óvíst er hins vegar hvernig snjókrabbinn hefur borist í Barentshafið, líklega annað hvort með kjölvatni skipa eða við náttúrulega útbreiðslu. Snjókrabbinn er algengur annars vegar í norðvesturhluta Atlantshafs, svo sem við Kanada og Grænland, og hins vegar í norðanverðu Kyrrahafi. Á þessum svæðum er hann verðmætur nytjastofn.

Mest af snjókrabbanum er í rússneskri lögsögu enn sem komið er en dýrið er farið að færa sig vestur á bóginn. Norskir vísindamenn segjast þurfa að fylgjast vel með því þegar hann gengur inn í norska lögsögu og á Svalbarðasvæðið.

Kóngakrabbinn er orðinn drjúg tekjulind fyrir marga norska sjómenn. Kvóti Norðmanna í þessari tegund er 900 tonn á þessu ári.