Það sem af er þessu ári hefur 41 skip verið selt í Færeyjum fyrir 552 milljónir (11,4 milljarða ISK) og 20 veiðileyfi hafa verið flutt á milli skipa, að því er fram kemur á vef færeyska sjónvarpsins.

Þessi skipaviðskipti eiga sér einkum stað vegna makrílveiða. Þær útgerðir, sem leyfi fengu til að veiða makríl við Færeyjar, áttu ekki allar hentug skip. Þess vegna gripu þær til þess ráðs að kaupa skip í nokkrar vikur. Seljendur keyptu síðan skipin til baka að lokinni makrílvertíð.

Þetta mál kom til umræðu á færeyska þinginu í tengslum við eignaraðild útlendinga í færeyskum sjávarútvegi. Samkvæmt færeyskum lögum mega útlendingar aðeins eiga þriðjung í færeyskum sjávarútvegsfyrirtækjum.