Síðustu daga hefur verð á þorski frá Noregi náð nýjum hæðum á uppboðsmarkaðinum í London. Fyrir 2-4 kílóa þorsk frá Finnmörku í Norður-Noregi hafa fengist 50 NOK/kg eða jafnvirði 900 ISK, og fyrir 4-6 kílóa þorsk hafa verið greiddar 60 NOK/kg eða 1.080 ISK.
Í frétt um málið í Fiskeribladet/Fiskaren í dag segir að ástæðan fyrir þessu háa verði sé lítið framboð, m.a. vegna ótíðar í Finnmörku þannig að illa hefur gengið að róa. Þess er getið í fréttinni að þetta háa þorskverð sé álíka og verð á lúðu en slíkt hafi ekki gerst í háa herrans tíð.