Norðmenn eignuðust stærsta balabát í heimi þegar nýsmíðaður línubátur, M Solhaug, var afhentur eigendum á dögunum. Báturinn verður gerður út frá Båtsfjord í Finnmörk í Norður-Noregi. Báturinn er 34 metra langur og stundar veiðar í úthafinu. Frá þessu er greint í Kystmagasinet.

Báturinn var smíðaður í Tersan skipasmíðastöðinni í Tyrklandi og kostar um 100 milljónir króna norskar fullbúinn (um 1,9 milljarðar ISK).

Útgerðarmaðurinn sleppti því að setja nýtísku beitningarvél um borð og nýtir sér þess í stað handbeitningu í landi. Í hverri veiðiferð mun M Solhaug fara með 700 til 1.000 bala og getur haft 40 þúsund króka í sjó. Þess má geta til samanburðar að stærri balabátar á Íslandi reru á sínum tíma mest með 90 til 100 bala í veiðiferð.

Gert er ráð fyrir að M Solhaug komi með 80 tonn af ferskum fiski og 200 tonn af frosnum fiski úr hverri veiðiferð, alls 280 tonn.

Fjallað er nánar um bátinn í nýjustu Fiskifréttum.