Stór hluti loðnu, kolmunna og spærlings sem veitt er hér við land er nýttur til mjöl- og lýsisvinnslu og þá aðallega til fóðurframleiðslu. Lítið er gert af því að vinna aflann í verðmætari afurðir, þó einhverjar þreifingar í þá átt hafi verið fyrir hendi síðustu ár. Fullnýting afla er lykilmál fyrir íslenskar útgerðir og því er mikilvægt að auka virði á smáfiskaafla.

Sem dæmi um verðmætasköpun á uppsjávarfiski má nefna að ef 10.000 tonn af kolmunna færi í þurrkun í stað bræðslu, mætti auka verðmæti þess afla um 1.6 milljarða króna á ári.

Þetta kemur fram á vef Matís . Í gangi er samstarfsverkefni milli Matís, Haustaks og Síldarvinnslunar á Neskaupstað um þurrkun á uppsjávarfiski. Markmiðið með verkefninu er að byggja upp þekkingu og aðlaga þurrkunarferil á fullþurrkuðum afurðum úr loðnu, kolmunna og spærlingi, með notkun færibandaþurrkara. Horft er á þurrkaðar afurðir til manneldis á erlenda markaði, þá aðallega til Afríku, svo sem Kenýa og Tansaníu.

Matís hefur tekið þátt í þróunarstarfsemi í þessum löndum á undanförnum árum, varðandi þurrkun á smáfiski, sem nú er vel þekkt í þessum löndum. Cyprian Ogombe Odoli, doktorsnemandi á Matís og nemandi sem útskrifaðist frá  Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna tekur einnig þátt í þessum verkefnum.