Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa sent frá sér yfirlýsingu í aðdraganda blaðamannafundar sem atvinnuvega- og fjármálaráðuneytið hafa boðað til klukkan 13 í dag þar sem tilkynnt verður um áform um tvöfludn auðlindagjalds í sjávarútvegi. Í yfirlýsingu SFS segir að með þessum áformum geri ríkisstjórnin atlögu að fólki og störfum á landsbyggðinni.

Ríkisstjórnin hefur boðað til blaðamannafundar kl. 13 í dag og hyggst þar kynna hugmyndir að tvöföldun auðlindagjalds í sjávarútvegi. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi telja útfærslu gjaldtökunnar og áhrif hennar skaðlegri samfélaginu en flestar þær hugmyndir sem áður hafa komið fram. Auðlindagjaldtaka í sjávarútvegi hefur tekið allnokkrum breytingum frá því henni var fyrst komið á árið 2004, alla jafna í því augnamiði að hækka gjaldið. Í grundvallaratriðum hefur þó ávallt verið miðað við hlutfall af afkomu, þ.e. raunverulegar tekjur veiða að frádregnum raunverulegum gjöldum sem til falla við þær. Ríkið tekur nú þriðjung af þessari afkomu í veiðigjald.

Miðað við tekjur í sundurslitinni virðiskeðju

Ríkisstjórnin hyggst í dag kynna algerlega breytta nálgun. Þannig er nú fyrirhugað að blása upp tekjur af veiðum og miða þar við verð á norskum uppboðsmörkuðum fyrir uppsjávarfisk og íslenskum uppboðsmarkaði fyrir botnfisk. Hér á með öðrum orðum að miða við tekjur í sundurslitinni virðiskeðju, en ekki samþættri virðiskeðju, líkt og á við um íslenskan sjávarútveg. Verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs hefur einmitt hverfst um hina samþættu virðiskeðju og óumdeilt er að hún hefur skapað Íslendingum meiri verðmæti en nokkur önnur þjóð fær úr sínum sjávarútvegi. Þennan árangur ætlar ríkisstjórnin nú að tæta í sundur.

Störfum fækkar, skatttekjur lækka

Verði þessi breyting að veruleika, þá verða áhrifin dapurleg. Fyrirtækin munu þurfa að aðlaga sig að forsendu hinnar breyttu gjaldtöku og fylgja fyrirmynd Norðmanna. Tekjur veiða þurfa þá að aukast í takt við viðmið veiðigjaldsins, með þeim áhrifum að fiskvinnslur verða ósamkeppnishæfar. Eins og reyndin er í Noregi, mun fiskur þá í verulegum mæli flytjast óunninn úr landi til ríkisstyrktra fiskvinnsla í láglaunalöndum á borð við Pólland og Kína. Verðmætasköpun hér á landi verður þar með minni, störfum í fiskvinnslu fækkar stórum og afleiddar tekjur þjónustu og iðnaðar verða hverfandi. Nýsköpun og tækniframfarir frá landvinnslu sjávarafurða, sem hingað til hafa orðið sérstakur útflutningsatvinnuvegur, drabbast niður. Ríflegar tekjur sveitarfélaga frá sjávarútvegsfyrirtækjum og fólki sem þar starfar dragast verulega saman og ríkissjóður verður af skatttekjum frá landvinnslu og fyrirtækjum sem þjónusta hana.

Samfélagið verði af tekjum

Niðurstaða þessarar tilraunar ríkisstjórnarinnar er því augljós. Samfélagið allt verður af tekjum og sjávarútvegur verður ekki sú lífæð landsbyggðar sem við þekkjum.

Það má að lokum velta fyrir sér um stund vegferð ríkisstjórnar í sjávarútvegsmálum, sem lagði í upphafi vegferðar sinnar áherslu á verðmætasköpun. Á stuttum starfstíma er því miður djúpt á þeirri framtíðarsýn. Óhagkvæmar veiðar á að auka, kolefnisgjald á að hækka, veiðar og vinnsla verða sundur slitin með tvöfölduðu veiðigjaldi og eignarhald verður blýhúðað enn frekar umfram aðrar atvinnugreinar. Við þetta allt blandast síðan hættulegar aðstæður á erlendum mörkuðum með breyttri heimsmynd alþjóðaviðskipta og fyrirsjáanlegum efnahagslegum þrengingum á stærstu mörkuðum íslenskra sjávarafurða. Það er þungur róður fram undan.“