„Við viljum skoða hver yrðu næstu skrefin í áttina að frekari vistkerfisnálgun í fiskveiðistjórnun. Bæði á Íslandi en líka fyrir allt Norðaustur-Atlantshaf,“ segir Jean-Christophe Vandevelde, framkvæmdastjóri sjávarútvegsdeildar PEW.

Hann var hér á landi nýverið ásamt nærri tuttugu öðrum starfsmönnum sjávarútvegsdeildarinnar á vinnufundi, þar sem meðal annars var verið að undirbúa Reykjavíkurráðstefnuna. Stefnt er á að halda hana í lok september. Fiskifréttir ræddu við hann og Tim Tom Pickerell, sem er nýtekinn við sem yfirmaður sjávarútvegsdeildar PEW en hann var áður yfirmaður North Atlantic Pelagic Advocacy (NAPA). Einnig var Daniel Steadman með þeim, en hann er í starfsmannahópi deildarinnar.

Lítið um efndir

Þeir segja fiskveiðiþjóðirnar við Norðaustur-Atlantshaf hafa fyrir löngu skuldbundið sig til þess að beita svonefndri vistkerfisnálgun í fiskveiðistjórn. Efndirnar hafi hins vegar að stórum hluta látið á sér standa.

„Barátta okkar snýst fyrst og fremst um að breyta þessu úr því að vera meira fræðilegt yfir í það að vera tekið upp í reynd í fiskveiðistjórnun hvers lands,“ segir Steadman. „Ástæðan fyrir því að Ísland er svo áhugavert í þessu samhengi er að Íslendingar hafa nú þegar tekið sum af þeim skrefum sem taka þarf til að gera þetta að veruleika.“

Vandevelde segir Ísland vera „mögulega í fararbroddi í þessum efnum því hér er nú þegar búið að gera góða hluti, og við sjáum fyrir okkur að Ísland aðstoði kannski hin löndin í því að komast lengra.“

Samspil tegundanna

Hann nefnir sérstaklega loðnuna og samspil hennar við þorskinn. Íslensk fiskveiðistjórnun taki mið af því að þorskur étur loðnu.

„Þegar það er gert þá er ekki hægt að hámarka veiðarnar í einhverju tómarúmi, því við þurfum líka að taka tillit til annarra afræningja og finna jafnvægi á milli stofnanna.“

Þeir binda ekki síst vonir við að þessi vinnubrögð verði tekin upp þegar strandríkin semja um veiðar úr uppsjávarstofnunum sem þau deila með sér. Um langt árabil hefur ekkert samkomulag tekist um skiptingu veiða úr makríl-, kolmunna- og síldarstofnunum, með þeim afleiðingum að ofveiði hefur verið úr stofnunum ár eftir ár.

„Því miður hafa ekki verið nógu öflugar raddir á vettvangi strandríkjanna til þess að sannfæra öll hin Norðaustur-Atlantshafsríkin um að stjórna fiskveiðum sínum sameiginlega með þeim hætti,“ segir Vandevelde.

Þversögn

Þeir segja það ekki líklegt til árangurs að einblína á þrönga hagsmuni hvers og eins þegar reynt er að ná samningum um veiðar.

„Mikið er í húfi, og við erum að reyna að vekja athygli á þversögninni í því að fólk fer á alþjóðlegar ráðstefnur um líffræðilegan fjölbreytileika og segist styðja það að vernda eigi 30% af heimshöfunum en kemur svo heim í framhaldinu og getur þá ekki einu sinni komið sér saman um það hvernig eigi að standa að veiðum á einni tegund án tillits til annarra tegunda.“

Samtökin Pew Charitable Trusts voru stofnuð fyrir 75 árum í Bandaríkjunum. Þau hafa áratugum saman unnið að því að fá stjórnvöld í Bandaríkjunum og víðar í heiminum til þess að virða umhverfissjónarmið í lagasetningu og stefnumótun, meðal annars þegar kemur að sjávarútvegi.