Fyrsta norska loðnuskipið á þessari vertíð kom inn í íslenska efnahagslögsögu síðastliðinn laugardag og eru nú tvö skip komin á miðin fyrir austan land, að því er fram kemur á vef Landhelgisgæslunnar.

Erlend loðnuskip hafa tilkynningaskyldu gagnvart Landhelgisgæslunni meðan þau eru innan hafsvæðisins, tilkynna þegar þau koma inn og sigla út úr íslenskri efnahagslögsögu, þau þurfa að vera í ferilvöktun og senda aflatilkynningar. Engin færeysk skip eru komin til veiða en tvö grænlensk skip hafa þegar hafið veiðar.

Samkvæmt reglugerð um loðnuveiðar norskra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands eru veiðar þeirra heimilar til 15. febrúar. Þeim er heimilt að veiða samtals 40.182 lestir í fiskveiðilandhelgi Íslands og geta 25 skip verið að veiðum í einu. Norskum skipum er aðeins heimilt að stunda loðnuveiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands norðan við 64°30´N.

Landhelgisgæslan fylgist með veiðum skipanna sem lýkur þegar þau ná kvóta, loðnan færist sunnan við 64°30´N eða komið er framyfir 15. febrúar.