Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst í gærkvöld tilkynning frá norska loðnuskipinu Fiskebas um að það væri komið inn í íslensku fiskveiðilögsöguna. Fiskebas er fyrsta erlenda skipið sem kemur hingað til loðnuveiða á yfirstandandi vertíð. Tvö skip til viðbótar hafa svo bæst við undanfarnar klukkustundir, eitt norskt og eitt færeyskt. Skipin eru að veiðum austur af landinu. Þetta kemur fram á vef Gæslunnar.
Upphaf þessarar loðnuvertíðar er nokkuð óvenjulegt þar sem engin íslensk uppsjávarskip eru á miðunum vegna verkfalls sjómanna. Erlendu skipin eru því ein um hituna, að minnsta kosti að sinni.
Varðskipið Týr er nú á leið norður fyrir landið og er stefnan sett á loðnumiðin. Rétt eins og á fyrri loðnuvertíðum sinnir Landhelgisgæslan þar venjubundnu eftirliti og tryggir þannig að veiðarnar gangi vel og rétt fyrir sig.