Útflutningstekjur af sjávar- og eldisafurðum voru samanlagt 77 milljarðar króna á fyrsta ársfjórðungi 2021, sem er ríflega 34% af útflutningstekjum þjóðarbúsins á því tímabili. Það er svo til á pari við útflutningstekjur af sjávar- og eldisafurðum samanlagt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra.
Útflutningstekjur þjóðarbúsins vegna vöru- og þjónustuviðskipta voru um 224 milljarðar króna á sama tíma. Í krónum talið er um liðlega 15% samdrátt að ræða á milli ára. Samdrátturinn er ívið meiri í erlendri mynt, eða 21%, enda var gengi krónunnar um 7% lægra á fyrsta fjórðungi í ár en á sama tíma í fyrra.
Þetta kemur fram á Radarnum, mælaborði sjávarútvegsins.
Þar segir jafnframt að í nýrri spá Seðlabankans kemur fram að horfur um útflutning á sjávarafurðum í ár hafi batnað vegna meiri og verðmætari loðnuafla. Því til viðbótar gerir bankinn ráð fyrir lítilsháttar aflaaukningu í þorski og ýsu, en í febrúarspá sinni reiknaði hann með samdrætti þar á árinu. Bankinn er nú einnig bjartsýnni, en hann var í febrúar, á markaðsaðstæður á alþjóðamörkuðum með sjávarafurðir.
„Telur hann að vísbendingar séu um að jafnvægi sé að nást á mörkuðum fyrir mikilvægar botnfiskafurðir nú á öðrum ársfjórðungi og að verð þeirra fari hækkandi þegar líður á árið. Þar að auki hefur verðþróun á loðnuafurðum verið einkar góð og segir bankinn að vísbendingar séu um að verð annarra uppsjávarafurða hækki þegar líða tekur á árið. Spáir bankinn að útflutningsverð sjávarafurða í erlendri mynt haldist óbreytt að jafnaði í ár, á milli ára, en í febrúar hafði hann reiknað með 2% lækkun,“ segir í fréttinni.