Stöðugt þrengist að aðstöðu smábátasjómanna í gömlu höfninni í Reykjavík. Einkum er það vöxtur ferðaþjónustunnar sem hefur komið niður á smábátasjómönnum. Þeir hafa lengi viljað færa aðstöðu sína úr Suðurbugt þar sem austanáttir hafa verið smábátum skeinuhættar en ekki mætt velvilja hafnaryfirvalda.

Þorvaldur Gunnlaugsson, sem endurkjörinn var formaður Smábátafélags Reykjavíkur í síðasta mánuði, hefur hvatt félaga sína að standa á rétti sínum varðandi hafnaraðstöðu sem hafi verið frá upphafi byggðar í Reykjavík.

Þorvaldur hefur verið í forsvari fyrir smábátasjómenn í Reykjavík í yfir áratug og segir margt hafa áunnist á þessum tíma en margt sé óunnið.

Vildu í Vesturbugtina

„En það hefur auðvitað verið mikill uppgangur í ferðaþjónustunni í Reykjavíkurhöfn og um leið fækkað í okkar hóp. Það er lítil endurnýjun og margir hætt vegna aldurs. En svo er þrengt að okkur og erfitt að komast að. Baráttan hefur ekki síst snúist um leguplássin. Það verða mjög vond veður hjá okkur í Suðurbugtinni í austanáttum. Það verður þarna mjög hvasst og á undanförnum tíu árum hefur það tvisvar gerst að bátar hafa losnað frá. Við gældum við það að fá aðstöðu í Vesturbugt þar sem Sjóminjasafnið á Grandagerði er. En það hefur verið tekið undir ferðaþjónustuna,“ segir Þorvaldur.

Mörg önnur mál brenna á smábátasjómönnum. Eitt þeirra er krafa stærri útgerða innan krókaaflamarksins um afnám veiðarfæratakmarkana hjá krókaaflamarksbátum og leyfa þeim að stunda netaveiðar. Þorvaldur segir menn séu alfarið á móti þessu og telja að þetta myndi leiða til endaloka smábátaútgerðar. Þetta myndi leiða til meiri samþjöppunar aflaheimilda og framtíð einyrkja væri ekki björt.

„Þeim er frjálst að selja í krókakerfinu og kaupa í stóra kerfinu sem það vilja.“

Þorvaldur segir fulla þörf á endurskoðun veiðigjalda sem koma harkalega niður á smábátasjómönnum. „Við erum að borga veiðileyfagjöld fyrir árið 2015 fyrir afkomu á þessu ári sem var einstaklega rýr og verðin lág síðastliðið vor og sumar.“

Veiða sem mest af makríl

Smábátafélag Reykjavíkur hefur samþykkt ályktanir þar sem farið er fram á lækkun veiðigjalda og að veðigjöld af leigukvóta séu greidd af þeim sem eiga kvótann en ekki þeim sem leigja hann og að þeir sem landi á fiskmarkað fái afslátt af veiðigjöldum.

„Við viljum líka frjálsar makrílveiðar hjá smábátum. Makríll er ný fisktegund í okkar lögsögu og við vorum ennþá að græja okkur þegar veiðin hófst. Svo var hann fljótlega kvótasettur. Við erum ekki vissir um að makríll haldi sig lengi á okkar slóðum svo við teljum að það ætti að veiða sem mest af hann meðan hægt er.“

Þorvaldur fór sjálfur ekki á makríl að þessu sinni en var á handfærum. Hann segir veiðina hafa verið mjög góða, sérstaklega seinni parts sumars en þá var hann við veiðar fyrir vestan.