Íslendingar hafa rétt á að veiða tæplega 4.300 tonn af þorski í lögsögu Rússlands í Barentshafi á næsta ári. Því til viðbótar geta íslenskar útgerðir leigt til sín tæplega 2.600 tonna kvóta. Alls er því gefinn kostur á rúmlega 6.800 tonna kvóta.

Meðaflaheimild í ýsu verður áfram 20% og nemur 1.367 tonnum en meðaflaheimild í öðrum tegundum nemur 10% aflaheimilda í þorski.

Þetta kom fram á fundi samstarfsnefndar Íslands og Rússlands um tiltekna þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegsmála var haldinn í Moskvu í síðustu viku. Á fundinum voru rædd þau mál sem helst eru á döfinni varðandi samstarf landanna á vettvangi sjávarútvegsmála.

Þar var sérstaklega rætt um mikilvægi þess að Rússar verði aðilar að samkomulagi sem náðist fyrr á árinu um stjórnun úthafskarfaveiða á Reykjaneshrygg. Ísland áréttaði vonbrigði sín með afstöðu Rússlands til ráðgjafar ICES um stofnstærð og stofngerð og nauðsynjar þess að draga úr veiðum. Að óbreyttu muni óhóflegar veiðar Rússlands draga úr möguleikum þess að rétta megi við bága stöðu stofnanna.

Af hálfu Íslands var lögð áhersla á að framtíðarveiðistjórnunin byggi á þeirri vísindalegu þekkingu og ráðgjöf sem liggur fyrir, segir í frétt frá sjávarútvegsráðuneytinu.