„Víða er þorskurinn til vandræða. Við eigum takmarkaðan þorskkvóta og verðum því að gæta okkar. Það er bara ekki mikil þorskgengd sem veldur okkur vandræðum. Gullkarfakvótinn er orðinn lítill en gullkarfinn þvælist fyrir okkur mjög víða. Svo er það blessuð ýsan sem við höfum verið á flótta undan allt fiskveiðiárið. Ýsan virðist, ekki frekar en þorskurinn og gullkarfinn, vita af kvótaráðgjöfinni og fyrir vikið erum við í tómum vandræðum með það hvar óhætt er að veiða.”

Þetta segir Eyþór Atli Scott, skipstjóri á frystitogaranum Vigra RE, í viðtali við heimasíðu Brims en hann lauk veiðiferð í síðustu viku. Aflinn var rúmlega 1.000 tonn upp úr sjó að verðmæti 340 til 350 milljóna króna. Veiðiferðin tók 25 daga.

„Það má segja að aflabrögðin hafi verið upp og ofan. Við vorum að veiðum frá Skerjadjúpi í suðri og norður og austur að Halamiðum. Við lentum í góðu ufsaskoti á Halanum en í Skerjadjúpinu fengum við aðallega gulllax og svo þokkalegan djúpkarfaafla,” segir Eyþór en hann getur þess að á sumum veiðisvæðum þýði ekkert að stunda veiðar vegna mikillar þorskgengdar en á öðrum flæði gullkarfinn yfir.

„Eldeyjarbankinn er eitt af þessum svæðum. Þar er svo mikið af þorski að það þýðir ekkert að stunda ufsaveiðar. Víkurállin er annað svæði en það er útilokað fyrir okkur að stunda þar veiðar vegna mikillar þorskgengdar. Við kíktum einnig í Kolluálinn en þar var bara þorskur,” segir Eyþór í viðtallinu en að hans sögn var aftur farið á Halann eftir millilöndun í Reykjavík.

„Við hugðum gott til glóðarinnar varðandi frekari ufsaveiðar og það vantaði ekki að skip voru að fá mjög góðan afla á svæðinu. Vandinn var sá að þorskur hafði flætt yfir svæðið frá því að við vorum þar nokkrum dögum fyrr og við urðum því frá að hverfa. Við leituðum einnig að grálúðu á Hampiðjutorginu og fengum alveg þokkalegt kropp á þeim þremur dögum sem við vorum á svæðinu.”

Ljóst er, á ummælum Eyþórs, að það gætu farið erfiðir þrír mánuðir í hönd í lok kvótaársins. Eyþór er þó bjartsýnn á að hægt verði að veiða ufsa án þess að aðrar tegundir þvælist of mikið fyrir.

„Ufsinn kemur. Það gerir hann alltaf,” segir Eyþór í frétt Brims.