Hver Svíi borðaði að meðaltali tíu kíló af fiski á síðasta ári, samkvæmt nýlegri neyslukönnun. Laxinn er sem fyrr vinsælastur en þorskurinn er í mikilli framsókn, að því er fram kemur á vefnum dn.se.

Þessar upplýsingar koma frá norska útflutningsráðinu sem fylgist grannt með fiskneyslu Svía en Svíþjóð er mikilvægur markaður fyrir norskar sjávarafurðir. Á síðasta ári keyptu Svíar um 95 þúsund tonn af sjávarafurðum frá Noregi fyrir um sjö milljarða sænskra króna, jafnvirði 127 milljarða íslenskra króna.

Tæplega 80% af öllum fiski sem seldur er í Svíþjóð er norskur. Nær allur lax er norskur og stór hluti af ferska þorskinum. Haft er eftir talsmönnum norska útflutningsráðsins að umræðan síðustu árin um ofveiði á þorski hafi dregið úr eftirspurn í Svíþjóð. Nú sé hins vegar komin á markaðinn þorskur sem fengið hafi vottun um sjálfbærar veiðar og viðhorf neytenda hafi því breyst.