Dæmi eru um að verð á þorski sem landað er til vinnslu á norðanverðum Vestfjörðum sé í kringum 150 krónur á kílóið. Einnig er mjög lágt verð fyrir þorskinn á mörkuðum, en hefðbundinn blandaður handfæraþorskur á bilinu 2-2,7 kíló seldist á 175 krónur kílóið í gær. Þorskurinn í stærðarflokk ofar eða 2,7-3,5 kíló seldist á kringum 250 krónur kílóið.
Þetta kemur fram á vefnum BB.is á Ísafirði.
„Þetta endurspeglar það sem menn eru að fá fyrir það í hinn endann. Það er nú bara þannig, þetta fer nú oft saman,“ segir Óðinn Gestsson, framkvæmdastjóri hjá fiskvinnslunni Íslandssögu á Suðureyri í samtali við BB.