Ekki er hægt að fullyrða að þorskstofninn í Eystrasalti standi undir þeim veiðum sem á honum eru stundaðar og því geta þorskveiðar þar ekki flokkast sem sjálfbærar lengur með óyggjandi hætti. Marine Stewardship Council (MSC), sem metur og vottar sjálfbærni fiskveiða í heimshöfunum, segir ónóg gögn um stærð og ástand stofnsins og hefur því aflagt vottun á Eystrasaltsþorski.

Útgerðir og fiskvinnslur í Svíþjóð, Danmörku, Þýskalandi, Póllandi og Lettlandi höfðu merkt allar sínar þorskafurðir með sjálfbærnistimpli MSC, en fá ekki að gera það lengur. Minna Epps, svæðisstjóri MSC á Norðurlöndum, segir þetta mikil vonbrigði og sorgardag fyrir alla sem hlut eiga að máli. Staðreyndin sé einfaldlega sú, að þau rannsóknargögn sem fyrir liggi um stærð og ástand stofnsins, ekki síst hrygningarstofnsins, séu ekki nægilega góð til að byggja á þeim mat sem uppfylli vísindalegar kröfur. Því sé ekkert annað í stöðunni en að afturkalla sjálfbærnivottunina.

Skýrt er frá þessu á vef RÚV.