Niðurstöður í viðamikilli rannsókn Guðbjargar Ástu Ólafsdóttur, forstöðumanns við Rannsóknasetur Háskóla Íslands í Bolungarvík, sýna stofnhrun í þorski við upphaf 16. aldar og áframhaldandi fækkun í stofninum allt fram til okkar tíma. Í þessum rannsóknum studdist hún við bein sem komu upp við fornleifagröft í fornum og yfirgefnum verbúðum víða um land.
Greint var frá niðurstöðum rannsóknanna í vikunni í hinu virta vísindatímariti Royal Society's Proceedings B. Í frétt á vef Háskóla Íslands segir niðurstöðurnar umtalsverða þýðingu fyrir fiskveiðistjórnun enda sýna þær að miklar breytingar geta orðið í þorskstofninum á tiltölulega stuttu tímabili, jafnvel án áhrifa iðnvæddra veiða.
„Við áætluðum fjölda hrygna í upphafi 16. aldar með erfðafræðilegum líkönum um 300.000 – 400.000 einstaklinga en um tífalt færri í nútíma. Þá sýndu aldursgreiningar á beinunum að þorskarnir urðu mun eldri á sögulegum tíma. Meðalaldurinn fyrir 17. öld var um 13 ár en er undir 10 árum í veiðistofninum í dag. Lækkun meðalaldurs veiðistofns er oft talin til marks um ofveiði en þar sem við sáum lækkun í aldri töluvert seinna en hrun stofnsins benda niðurstöðurnar ekki sérstaklega til að ofveiði á sögulegum tíma hafi valdið stofnhruninu. Það er líklegt að hrunið megi skýra með breytingum á umhverfi sjávar á þessum tíma, mögulega tengt loftslagsbreytingum, en á sama tímabili kólnar á Norður-Atlantshafssvæðinu," segir Guðbjörg Ásta.
Sjá nánar á vef Háskóla Íslands.