Hafrannsóknastofnun hefur merkt rúmlega 17.000 þorska við landið síðan að þorskmerkingar hófust eftir nokkurt hlé árið 2019. Með þessum merkingum er mögulegt að rannsaka hegðun þorsks. Gögn úr fyrri merkingum hafa leitt í ljós ólíkt far og atferli hjá þorski við Ísland. Það skiptir sérfræðinga Hafrannsóknarstofnunar afar miklu máli að sjómenn komi merkjunum til stofnunarinnar.

Fiskar hafa verið merktir við Ísland í meira en eina öld en markmiðið með rannsóknunum er að skoða göngur fiska. Árið 2019 hófust merkingar á þorski aftur eftir hlé og hafa rúmlega sautján þúsund þorskar verið merktir með slöngumerkjum frá mars 2019 til apríl 2022.

„Við höfum verið að merkja á ýmsum svæðum við landið og á mismunandi tímum ársins. Árið 2019 var merkt í togararallinu í mars, bæði út af Vestfjörðum og á Kolbeinseyjarhrygg. Á tímabilinu frá 2020 til 2022 fóru merkingar fram allt í kringum landið á hrygningarsvæðum í apríl. Á haustin höfum við einbeitt okkur að merkingum á smáþorski í Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi,“ segir Ingibjörg G. Jónsdóttir, sjávarvistfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun.

Ingibjörg G. Jónsdóttir, sjávarvistfræðingur, vinnur að þorskmerkingum.
Ingibjörg G. Jónsdóttir, sjávarvistfræðingur, vinnur að þorskmerkingum.
© Hafrannsóknastofnun (Hafró)

Fylgst með göngum

Við rannsóknirnar eru notuð tvenns konar merki; slöngumerki og rafeindamerki. Slöngumerkin eru utanáliggjandi og allir fiskar eru tvímerktir nema smáþorskurinn.

„Merkin eru appelsínugul eða gul og eru staðsett sitthvoru megin við bakuggann. Slöngumerki gefa okkur einungis upplýsingar um hvar fiskur sem merktur er á ákveðnu svæði veiðist aftur, en ekki um staðsetningu hans á milli merkinga og endurheimtu. Í krafti fjöldans er hins vegar hægt að skoða göngur þorsks.

Merkingarstaðir áranna 2019 - 2022.
Merkingarstaðir áranna 2019 - 2022.
© Hafrannsóknastofnun (Hafró)

Markmiðið með þessum rannsóknum er að skoða far þorsks, í hvaða mæli þorskar endurheimtast utan íslenskrar lögsögu og ferðir ungþorsks frá uppeldissvæðum. Mikilvægt er að fylgjast reglulega með göngum hans og sjá hvort þær hafi breyst t.d. vegna breytinga í sjávarhita eða aðgengi að fæðu eins og loðnu,“ segir Ingibjörg sem bætir við að nýlega var byrjað að merkja aftur með rafeindamerkjum sem eru þróuð og framleidd af fyrirtækinu Stjörnu-Odda.

Ferlar úr rafeindamerki sem var í þorski í 2 ár. Þorskurinn var merktur á hrygningartíma í apríl 2004 og var endurheimtur á hrygningartíma tveim árum seinna. Efri myndin sýnir dýpisferil en sú neðri hitastig. Vel sjást þrjú hrygningartímabil hjá þessum einstaklingi en fyrir hrygningu færir hann sig nokkuð snögglega frá 300-500 m dýpi upp á u.þ.b. 100 m dýpi þar sem hann hrygnir.
Ferlar úr rafeindamerki sem var í þorski í 2 ár. Þorskurinn var merktur á hrygningartíma í apríl 2004 og var endurheimtur á hrygningartíma tveim árum seinna. Efri myndin sýnir dýpisferil en sú neðri hitastig. Vel sjást þrjú hrygningartímabil hjá þessum einstaklingi en fyrir hrygningu færir hann sig nokkuð snögglega frá 300-500 m dýpi upp á u.þ.b. 100 m dýpi þar sem hann hrygnir.
© Hafrannsóknastofnun (Hafró)

Að hennar sögn voru rafeindamerki fyrst notuð hér við land árið 1995. Fyrir aldamót voru rúmlega þúsund þorskar merktir með rafeindamerkjum. Merkingunum var haldið áfram til ársins 2010 en frá þeim tíma hafa þorskmerkingar með rafeindamerkjum legið niðri.

„Fyrstu árin var minnið í merkinu takmarkað og því var mismunandi tíðni í skráðum mælingum. Stundum voru mælingar aðeins skráðar á sex klukkutíma fresti til að ná sem lengstri tímaröð. Merkin hafa verið í mikilli þróun og geta þau nú tekið á móti mælingum á 10 mínútna fresti í þrjú ár eða lengur ef tíðni milli mælinga er lengri,“ segir Ingibjörg.

Þrír þorskar

Í netarallinu í apríl síðastliðnum voru merktir 151 þorskur með rafeindamerkjum út af Knarrarós og Þorlákshöfn. Stefnt er á að merkja 200 þorska til viðbótar í haust.

„Þá verður farinn leiðangur á Dohrn-banka en þar verður merkt bæði með rafeinda- og slöngumerkjum. Við höfum áhuga á að sjá hvert sá þorskur fer en þrír þorskar úr merkingum okkar hafa nýlega endurheimts þar,“ segir Ingibjörg en eins og Fiskifréttir greindu frá í vetur gaus upp góð þorskveiði á svæðinu og gerðu mörg skip góða túra þegar veður leyfði.

Undir hnífinn

Rafeindamerkin eru sett í kviðarhol fisksins en fiskarnir gangast undir smá aðgerð til að hægt sé að koma þeim fyrir. Eftir að fiskarnir eru komnir um borð eru þeir settir í sjó í kari þar sem þeir fá að jafna sig áður en merkinu er komið fyrir en aðeins frískir þorskar eru merktir. Gul slanga stendur út úr kviðnum þannig að þegar fiskurinn er slægður á hún að sjást vel. Fiskarnir eru einnig merktir með tveimur slöngumerkjum þannig að hver fiskur er þrímerktur.

Ingibjörg segir að gögn úr rafeindamerkjum fást eingöngu með því að lesa af þeim með sérstökum búnaði og þess vegna verður að fá merkin send til Hafrannsóknastofnunar svo þau séu til gagns.

Endurheimtur úr merkingum á árunum 2019-2021. Svartir punktar sýna merkingastað, rauðir endurheimtur á fæðutíma (júní-febrúar) og bláir á hrygningartíma (mars-maí). Svarta línan afmarkar lögsögu Íslands.
Endurheimtur úr merkingum á árunum 2019-2021. Svartir punktar sýna merkingastað, rauðir endurheimtur á fæðutíma (júní-febrúar) og bláir á hrygningartíma (mars-maí). Svarta línan afmarkar lögsögu Íslands.
© Hafrannsóknastofnun (Hafró)

„Úr merkjunum fáum við upplýsingar um hitastig og dýpið sem fiskurinn heldur sig á. Þannig getum við skoðað hegðun þorsks en gögn úr fyrri merkingum hafa leitt í ljós ólíkt far og atferli hjá þorski við Ísland,“ segir Ingibjörg og útskýrir að annars vegar er þorskur sem heldur sig grunnt allt árið (grunnfar) og hins vegar þorskur sem fer á meira dýpi á fæðutíma (djúpfar).

„Þegar gögn úr rafeindamerkjum sem hafa verið lengur en tvö ár í sjó eru skoðuð kemur í ljós að þorskar sýna endurtekna hegðun og eru á svipuðu dýpi og við svipað hitastig á sama árstíma milli ára. En það eru ekki allir þorskar sem falla inn í þessa tvo hópa. Þeir geta t.d. dvalið lengur á grunnslóð eftir hrygningu áður en þeir fara á djúpslóð,“ segir Ingibjörg.

Merki sem notuð eru við þorskmerkingar. Það skiptir sérfræðinga Hafrannsóknarstofnunar afar miklu máli að sjómenn komi merkjunum til stofnunarinnar. Mynd/Hafrannsóknastofnun
Merki sem notuð eru við þorskmerkingar. Það skiptir sérfræðinga Hafrannsóknarstofnunar afar miklu máli að sjómenn komi merkjunum til stofnunarinnar. Mynd/Hafrannsóknastofnun