Evrópusambandið hefur ákveðið leyfilegar aflaheimildir í Eystrasalti á næsta ári. Þorskkvótinn í austanverðu Eystrasalti verður 67.850 tonn sem er 15% aukning frá yfirstandandi ári. Í vestanverðu Eystrasalti verður leyft að veiða 21.300 tonn sem er 13% aukning milli ára. Heildarkvótinn verður því liðlega 89.000 tonn.

Þróun þorskstofnsins í Eystrasalti hefur verið mjög jákvæð á undanförnum árum. Í kjölfar hertra veiðitakmarkana hefur stofninn rétt úr kútnum eftir að hafa verið hart leikinn vegna ofveiði í mjög langan tíma.