Reglugerð um álagningu veiðigjalda á næsta fiskveiðiári hefur verið gefin út í samræmi við nýsamþykkt lög. Sérstakt veiðigjald á uppsjávarfisk hækkar miðað við yfirstandandi fiskveiðiár en gjaldið á botnfisk lækkar. Þá hafa sérstakir þorskígildisstuðlar verið gefnir út sem lagðir verða til grundvallar við útreikning veiðigjalda.
Fjárhæð veiðigjalda er:
- 9,50 kr. í almennt veiðigjald fyrir hvert sérstakt þorskígildiskíló. Almennt veiðigjald á hvert skip skal þó aldrei vera lægra en 5.000 kr. (Óbreytt frá yfirstandandi fiskveiðiári).
- 38,25 kr. í sérstakt veiðigjald á hvert sérstakt þorskígildiskíló í uppsjávarveiðum (var 27,50 kr.) og 7,38 kr. á hvert sérstakt þorskígildiskíló í botnfiskveiðum (var 23,20 kr.) eins og þessar veiðar eru skilgreindar í 3. gr. laga nr. 74/2012 um veiðigjöld.
Lækkun sérstaks veiðigjalds (óbreytt):
- Af fyrstu 30.000 sérstöku þorskígildiskílóum hvers gjaldskylds aðila greiðist ekkert sérstakt veiðigjald.
- Af næstu 70.000 sérstöku þorskígildiskílóum hvers gjaldskylds aðila greiðist hálft sérstakt veiðigjald.
- Af sérstökum þorskígildiskílóum hvers gjaldskylds aðila umfram 100.000 greiðist fullt sérstakt veiðigjald.
Samhliða álagningu veiðigjalda hafa verið gefnir út sérstakir þorskígildisstuðlar við útreikninga á gjöldunum. Vægi einstakra fisktegunda gagnvart þorski er annað hvort aukið eða dregið úr því. Í flestum tilvikum munar litlu, en vægi grálúðu lækkar þó töluvert, fer úr 2,67 niður í 1,80 og vægi úthafskarfa fer úr 1,25 niður í 0,79.
Sjá reglugerð: http://stjornartidindi.is/Advert.aspx?ID=a78877e3-4d54-45f7-bb0e-d1439708afd1