Fiskur inniheldur gæðaprótín, ekki aðeins í flakinu heldur einnig í haus, hrygg, afskurði og fleira. Vandinn er hvernig nýta má þetta góða prótín í öllum fiskinum til manneldis. Um það er fjallað í grein á vefnum forskning.no.
Í Noregi er svokallaður úrgangur eða hliðarhráefni frá fiskvinnslu og laxeldi einkum notaður í skepnufóður. Um 900 þúsund tonn af slíku hráefni falla til í Noregi árlega. Þar af eru hausar og hryggir frá laxeldi um 100 þúsund tonn.
Í umfjölluninni er sagt frá rannsóknum doktorsnemans Tone Aspevik á því hvernig megi nýta prótín úr hausum laxa til manneldis. Hún vann prótínduft úr þessu hráefni sem hentar sem grunnur í fiskisúpur og fiskikökur. Að loknu doktorsprófi hefur hún unnið áfram að þessu verkefni hjá norsku rannsóknastofnuninni Nofima. Um er að ræða nýtingu á þorskhausum jafnt sem hausum laxa. Tone Aspevik einbeitir sér að því að bæta bragðgæði prótínsins og sér fyrir sér að það geti verið fyrirtakshráefni í orkudrykki fyrir íþróttafólk.
Og ef svo færi að ekki væri til nægt fiskprótín í þessa framleiðslu segir Tone Aspevik að vinna megi prótínið úr skordýrum, en það er önnur saga.