Heildaraflinn á fiskveiðiárinu 2013/2014 var 1.082 þúsund tonn og dróst saman um 5,2% frá fyrra ári.  Botnfiskaflinn nam 471 þúsund tonnum og jókst um rúmlega 8 þúsund tonn. Stærsta skýringin á aukningunni er tæplega 17 þúsund tonna meiri þorskafli innan landhelgi og í Barentshafi.  Nokkur  aukning varð á afla í mörgum tegundum en á móti kemur lítilsháttar samdráttur í ýsu, steinbít, djúpkarfa og grálúðu. Þá varð talsverður samdráttur í úthafskarfa. Í flokknum annar bolfiskur er samdrátturinn um 5 þúsund tonn.

Uppsjávarafli íslenska flotans nam rétt tæpum 600 þúsund tonnum.  Það er tæplega þriðjungs samdráttur frá fyrra fiskveiðiári eða sem nemur rúmum 290 þúsund tonnum. Þetta skýrist af um 350 þúsund tonna samdrætti í loðnuafla en aukning var í afla á öðrum uppsjávartegundum. Afli í kolmunna jókst um 71 þúsund tonn eftir nokkur mögur ár. Rétt er að minna á að stjórn margra uppsjávartegunda miðast við almanaksárið en ekki fiskveiðiárið sem er til umfjöllunar hér.

Skelfisk- og krabbadýraafli var heldur minni á síðasta fiskveiðiári en á fyrra ári. Ástæða samdráttarins liggur í minni rækjuafla sem nemur um 2,2 þúsund tonnum. Lítilsháttar aukning varð í humarafla.

Vakin er athygli á að taflan sýnir allan afla íslenskra skipa í öllum lögsögum. Vert er að benda sérstaklega á í þessu samhengi að meðafli í ýsu, einkum við veiðar í Barentshafi nam 2.868 tonnum 2013/2014. Þá er meðtalinn í makrílnum afli íslenskra skipa í grænlenskri lögsögu upp á  9.708 tonn, en sá afli er veiddur undir stjórn Grænlendinga og telst ekki til hlutar Íslendinga í  veiðum úr stofninum.

Þetta kemur fram á vef Fiskistofu. Sjá nánar töflu HÉR.