Þorbjörn hf. í Grindvík hefur fest kaup á frystitogaranum Sisimiut frá grænlenska útgerðarfyrirtækinu Royal Greenland. Að sögn Eiríks Tómassonar, framkvæmdastjóra Þorbjörns, verður skipið afhent næsta vor.

Sisimiut, áður Arnar HU sem var gerður út frá Skagaströnd, er smíðaður 1992. Það er tæpir 67 metrar á lengd og 14 metrar á breidd. Það getur dregið tvær botnvörpur.

Fyrir gerir Þorbjörn út þrjú línuskip og tvo frystitogara; Hrafn Sveinbjarnarson GK og Gnúp GK. 2013 var Hrafn GK seldur til Rússlands. Hrafn Sveinbjarnarson var smíðaður í Noregi 1988. Skipið var svo lengt um 15,4 metra í Póllandi og endurnýjað að miklu leyti árið 2014.

Eiríkur segir að haldið verði áfram á þeirri  braut sem Þorbjörn hf. hefur verið. Sisimiut komi inn í flota fyrirtækisins í sumarbyrjun 2019. Líklega bætist skipið í hóp hinna tveggja frystitogarana en verið sé að skipuleggja hvernig staðið verði að málum.

Hann kveðst hafa fylgst með Sisimiut í gegnum tíðina og sér virðist sem þetta sé gott skip. Þetta sé með yngri skipum í grænlenska flotanum.

„Við höfðum selt frá okkur einn línubát og höfðum pláss fyrir þetta nýja skip. Við erum með ágætt skipulag hvað varðar flota og aflaheimildir og skip okkar hafa ekki legið mikið við bryggju,“ segir Eiríkur.