Það var á þessum degi, 24. nóvember 1953 að sjávarútvegsfyrirtækið Þorbjörn hf. var stofnað í Grindavík. Frá fyrsta degi hefur verið rekin öflug saltfiskvinnsla í landi og gerðir út fjölmargir bátar, línuskip, ísfisktogarar og frystitogarar frá Grindavík. Fyrirtækið hefur vaxið statt og stöðugt á þessum árum og er í dag eitt öflugasta sjávarútvegsfyrirtæki landsins.

70 ára afmæli fyrirtækisins ber óneitanlega upp á afar sérstökum tíma í grindvísku samfélagi, en jarðhræringar undanfarinna vikna hafa haft áhrif á starfsfólk, sem og alla Grindvíkinga.

Nýtt skip á leið heim

„Þegar þetta er skrifað starfar starfsfólk okkar m.a. í Kópavogi, Hafnarfirði, Reykjavík, Reykjanesbæ og Vogum. Hvar sem við höfum komið höfum við fengið hlýjar móttökur og kunnum við öllum þeim sem sýnt hafa okkur og Grindvíkingum hlýhug, miklar þakkir fyrir.

Við hjá Þorbirni horfum björtum augum til framtíðar og bíðum óþreyjufull eftir að geta haldið áfram starfsemi okkar og frekari uppbyggingu í Grindavík.

Hulda Björnsdóttir GK í smíðum á Spáni.
Hulda Björnsdóttir GK í smíðum á Spáni.

Þess ber að geta að þessa dagana er unnið hörðum höndum að því að gera nýtt ísfiskskip fyrirtækisins, Huldu Björnsdóttur GK11 klárt fyrir sjósetningu í skipasmíðastöð Armon í Gijon á Spáni. Frekari tíðinda er að vænta af því, en gert er ráð fyrir að sjósetning verði í næstu viku. Gert er ráð fyrir að Hulda Björnsdóttir sigli til Grindavíkur í maí 2024," segir í frétt frá Þorbirni.

Hulda Björnsdóttir GK, tölvugerð mynd.
Hulda Björnsdóttir GK, tölvugerð mynd.