Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri í Vestmannaeyjum sagði að bærinn og samfélagið muni vissulega ráða við það högg sem loðnubresturinn valdi, „en við þolum ekki meira en eitt svona högg.“
„En þetta hefur áhrif á heimilin, rúmlega 280 heimili, 16 prósent heimila í Vestmannaeyjum sem verða fyrir tekjuskerðingu upp á 620 milljónir. Það eru launatekjurnar sem koma út úr loðnuvertíð fyrir þessa starfsmenn,“ sagði hún.
„Á bak við þessar tölur eru fjölskyldur, því það eru tæplega 200 starfsmenn í landi í og við loðnuvinnslu og 85 sjómenn sem starfa hjá þessum þremur fyrirtækjum. Það kemur ekkert í staðinn hjá þessum sjómönnum.“
Þetta sagði Íris á fundi í Þekkingarsetri Vestmannaeyja í gær , þar sem umræðuefnið var loðnubresturinn, afleiðngar hans og aðgerðir.afleiðngar hans og aðgerðir.
Aðrir framsögumenn voru Hrafn Sævaldsson, nýsköpunar- og þróunarstjóri Þekkingarsetursins, og Sindri Viðarsson, sem er formaður Útvegsbændafélags Vestmannaeyja ásamt því að vera yfirmaður uppsjávarsviðs Vinnslustöðvarinnar.
Þau Íris og Hrafn komu með tölur um mikilvægi loðnunnar fyrir fyrirtækin, bæjarfélagið og samfélagið í Eyjum og Sindri benti jafnframt á að loðnan er ekki ein að valda vanda, því verulegur samdráttur hafi orðið vegna humarsbrests og samdráttar í kolmunna-, síldar- og makrílveiðum vegna ofveiði, eins og sjá má á töflunni sem fylgir þessari frétt og er fengin úr erindi Sindra.
Þrjú fyrirtæki í Vestmannaeyjum, Vinnslustöðin, Ísfélagið og Huginn, hafa tæplega þriðjung af heildarloðnukvóta íslenska flotans, „og ef litið er til aflaverðmætis og aflamagns þá lætur nærri að tæpur þriðjungur samanlagðra tekna se að koma frá loðnuveiðum,“ sagði Hrafn.
Hann sagði loðnubrestinn í ár valda því að nú verði sáralítið „veitt og unnið af uppsjávarfiski í sjö til átta mánuði með tilheyrandi tekjumissi fyrir aðila sem byggja afkomu sína á uppsjávarveiðum.“
Sindri velti því meðal annars fyrir sér hvernig útgerðarfélögin gætu brugðist við, bæði til skemmri og lengri tíma.
„Til skamms tima geta fyrirtækin farið í hagræðingu. Þau hafa gert það undanfarin ár. Þau hafa farið í miklar fjáfestingar og því hefur fylgt ákveðin hagræðing.“
Einnig þurfi þau að draga úr fjárfestingum og viðhaldi, sem komi reyndar niður á þeim í framtíðinni. Svo geti þau reynt að auka virði annarra afurða.
Stóra málið sé hins vegar hvað eigi að gera til framtíðar, og þar sé mikilvægast að auka rannsóknir.
„Við þurfum að skilja hvað er að gerast í náttúrunni. Við þurfum að skilja hvað við getum tekið út úr náttúrunni þannig að það verði sjálfbært.“
Sindri dró síðan fram dæmi um að áður hafi útlitið varðandi loðnuna verið svart, en hún hafi þó skilað sér á endanum.
„Nú erum við að fá fréttir á hverjum degi um að það sé loðna hér og loðna þar. Menn geti ekki togað af því það sé svo mikil loðna og það er dauð loðna í fjörunum, en það er enginn að fylgjast með.
Árið 2017 hafi menn varið 45 milljónum til að halda áfram loðnuleit eftir að henni var hætt í lok janúar.
„Það skilaði sér í kvóta upp á 299 þúsund tonn og útflutningsverðmætin urðu 18 milljarðar,“ sagði Sindri. „Með 45 milljónum jukum við útflutningstekjur íslensku þjóðarinnar um 18 milljarða. Það er besta ávöxtun sem við höfum fengið á fjárfestingu, bæði útgerðin og ríkissjóður. Síðan geta menn velt því fyrir sér hvað er sameign þjóðarinnar þegar þeir sjá svona dæmi.“