Fyrstu yfirferð loðnuleitar á þessu ári er að ljúka, en í henni taka þátt rannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson og veiðiskipin Jóna Eðvalds SF, Sigurður VE og Sighvatur Bjarnason VE.
„Útbreiðslumyndin er að skýrast og hún er í grófum dráttum sú að lítið sem ekkert fannst austan við Kolbeinseyjarhrygginn en úti af Norðvesturlandi og Vestfjörðum var eitthvað af loðnu að sjá þótt ekki væru merki um þéttar göngur,“ sagði Birkir Bárðarson leiðangursstjóri í samtali við Fiskifréttir í gærmorgun. „Næstu skrefin eru að mæla frekar á því svæði þar sem skipin hafa tilkynnt okkur um loðnu. Þá kemur kannski betur í ljós hvort innan um sé þéttari loðna. Ennþá getum við ekkert sagt um heildarmagn loðnu á leitarsvæðinu.“
Leitarsvæðið í þetta sinn náði austan frá Héraðsflóa og vestur í Víkurál.