„Þegar við erum komin með vinnustað sem er stærsti vinnustaðurinn fyrir utan sveitarfélagið þar sem eru heilsársstörf sem  borga útsvarið þá náttúrlega bendum við á hvað gæti gerst; þetta eru aðvörunarorð,“ segir Matthías Sævar Lýðsson, oddviti minnihluta A-listans í sveitarstjórn Strandabyggðar.

Matthías Sævar Lýðsson, bóndi og sveitarstjórnarfulltrúi.
Matthías Sævar Lýðsson, bóndi og sveitarstjórnarfulltrúi.

Matthías lagði fram tillögu sem samþykkt var í sveitarstjórn og felur í sér áskorun til atvinnuvegaráðherra og þingmanna Norðvesturkjördæmis um að koma í veg fyrir aðgrundvelli verði kippt undan starfsemi Vilja fiskvinnslu sem hóf starfsemi í júní í fyrra á grunni sértæks byggðakvóta.

„Það er sveitarstjórn Strandabyggðar áhyggjuefni ef fram komnar hugmyndir um auknar Strandveiðar verði til þess að skerða aflaheimildir samnings um sértækt aflamark til Strandabyggðar og kippa þar með fótunum undan heilsársstörfum í fiskvinnslu,“ segir í áskorun sveitarstjórnarinnar.

Val um tvær leiðir

Matthías tekur fram að ekki megi túlka tillöguna þannig að það sé amast við strandveiðunum sem slíkum heldur sé einfaldlega verið að vara við mögulegum afleiðingum aukinna strandveiða.

„Tillaga stjórnvalda gengur út á að auka strandveiðarnar og hafa 48 daga. Ef menn veiða bara svipað magn á hvern sóknardag og að óbreyttu aflamarki þá verður að taka það af einhverjum öðrum. Við erum að benda á og vara við því að það megi ekki taka þetta af þeim sem eru að skapa heilsársatvinnu,“ segir Matthías. Hann sjái tvær leiðir fyrir stjórnvöld til að ná í þennan viðbótarafla.

„Það er hægt að taka hann af einhverjum öðrum eða að auka fiskveiðiheimildirnar og þá verður allt vitlaust. Þetta eru tvær leiðir og báðar munu verða fyrir gagnrýni,“ segir Matthías og bendir á að 5,3 prósent af bolfiskaaflamarkinu séu í einum potti sem deilist á byggðakvóta, strandveiðar og sértækan byggðakvóta.

Deila áhyggjunum

„Í fyrra var bætt aðeins í strandveiðarnar, tvö þúsund tonnum, og þá skerti Byggðastofnun samninginn um sértæka aflamarkið  sem því svaraði,“ segir Matthías sem kveðst óttast að það verði niðurstaðan ef flytja eigi til kvóta innan sama potts.

Björk Ingvarsdóttir, framkvæmdastjóri Vilja fiskverkunar. Mynd/Aðsend
Björk Ingvarsdóttir, framkvæmdastjóri Vilja fiskverkunar. Mynd/Aðsend

„Við deilum áhyggjum sveitarstjórnarinnar,“ segir Björk Ingvarsdóttir, framkvæmdastjóri Vilja. Fiskvinnslan hafi beinlínis verið stofnuð vegna tilkomu sértæks aflamarks í Strandabyggð. „Forsendur vinnslunnar eru að stærstum hluta byggðar á þessari úthlutun og starfsemin öll hugsuð út frá því.“

Vilji er nú á öðru fiskveiðiárinu innan sex ára samnings um sértæka úthlutun upp á 500 þorskígildistonn. Björk kveðst óttast að aukning strandveiða verði til þess að  sértæka aflamarkið dragist saman.

Hugsa til lengri tíma

„Við náttúrlega byrjuðum með þennan samning í huga og erum núna komin með tuttugu manns í vinnu. Þannig að ef að fjölgun daga á strandveiðum kemur til með að skerða þessa úthlutun verulega þá eru forsendur vinnslunnar ekki lengur til staðar,“ segir Björk. Í raun megi fyrirtækið ekki við neinum samdrætti í kvótanum.

„Við erum að hugsa þetta verkefni líka til lengri tíma en aðeins þeirra sex ára sem samningurinn við Byggðastofnun nær til. Við þurfum þennan tíma til þess að byggja eitthvað sem stendur sjálft án stuðnings frá Byggðastofnun eftir að þessum samningi lýkur,“ segir Björk Ingvarsdóttir.