Dauft er yfir loðnuveiðum og illa horfir um framhaldið. Þrátt fyrir að úthlutaður loðnukvóti sé með minnsta móti í ár eru tugþúsundir tonna enn óveidd og gríðarlegir fjármunir eru í húfi.
„Það er ósköp lítið að gerast á loðnumiðunum. Undanfarna daga hefur verið leiðindaveður, en þegar skipin hafa getað athafnað sig hafa þau verið að berja á litlum peðrum í Faxaflóa og fengið mest karlsíli. Þetta er því rosalega lokalegt,“ sagði Sturla Einarsson skipstjóri á Guðmundi VE þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn til hans á ellefta tímanum í morgun.
„Það hefur verið stormur og ekkert veiðiveður í Breiðafirðinum í langan tíma. Samt hafa nokkur skip farið norður fyrir Nesið síðustu daga til að litast um eftir loðnu en ekki fundið neitt. Við erum nokkrir á leiðinni í Breiðafjörðinn á ný núna því veðrið hefur skánað þar,“ sagði Sturla.
Sturla sagði að mikil hætta væri á því að sú loðna sem komin væri norður fyrir Kolluálinn væri lögst í hrygningu. Hann sagði að helsta vonin væri sú að það kæmi vestanganga.
„Við verðum að vona að það komi einhver spýja úr norðvestri og inn á Breiðafjörðinn. Það gerðist einmitt í fyrra og bjargaði vertíðinni,“ sagði Sturla Einarsson.
Á vef Fiskistofu er skráð að aðeins hafi verið landað rúmum 60.000 tonnum af rúmlega 120.000 tonna kvóta. Líklega er aflinn orðinn töluvert meiri því ósennilegt er að allur afli hafi skilað sér til bókar.