Margir ráku upp stór augu þegar það upplýstist í síðustu viku að bróðurparturinn af þeim 57.000 tonna loðnukvóta sem Hafrannsóknastofnun hefur ráðlagt á þessari vertíð kæmi í hlut Norðmanna eða um 70% (40.000 tonn) meðan hlutur Íslands er 21% (12.000 tonn).
Meginskýringin er sú að Íslendingar þurfa að láta Norðmenn fá 31.000 tonna kvóta í samræmi við Smugusamninginn sem greiðslu fyrir þorskveiðiheimildir Íslendinga í Barentshafi. Upphaflega var þessi greiðsla 17.000 tonn af loðnu en hefur hækkað í hlutfalli við aukningu þorskkvótans og er nú 31.000 tonn.
„Mér finnst þetta alveg úti úr korti. Þessi samningur var gerður þegar loðnukvótinn var mjög stór og það virðist ekki hafa verið gert ráð fyrir þeirri stöðu sem nú er komin upp,“ segir Stefán Friðriksson forstjóri Ísfélags Vestmannaeyja í samtali við Fiskifréttir. „Það er ekki eðlilegt að svona stór hluti af loðnukvóta Íslendinga fari í að borga Norðmönnum veiðiheimildir í Barentshafi. Það þarf að finna aðra formúlu í þessu sem tekur miða af stærð loðnustofnsins.“
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.