Háey I ÞH, nýr 30 tonna línubátur GPG Seafood ehf. á Húsavík, er þegar kominn á veiðar. Báturinn var á Siglufirði í fyrradag í sinni þriðju löndun ef talinn er með prufutúr sem farinn var í Faxaflóa fyrir um tveimur vikum. Skipstjóri Háeyjar er Sævar Þór Ásgeirsson.

„Við komum á Siglufjörð í nótt [aðfaranótt þriðjudags] og höfum verið að fiska okkur norður. Við fórum frá Reykjavík á fimmtudag í síðustu viku og lögðum rúmlega 20 þúsund króka undir Malarrifi. Við vorum mest að prófa búnaðinn og höfðum ákveðið að fara norður af allt virkaði eins og það á að gera. Annars hefðum við farið aftur til Reykjavíkur til að láta lagfæra. En þetta gekk alveg bærilega og við fengum 8,5 tonn. Þetta var alveg ágæt byrjun,“ segir Sævar Þór.

  • Sævar Þór Ásgeirsson, skipstjóri á Háey I. Mynd/Þorgeir Baldursson

Aflanum var landað á Rifi og þar biðu menn af sér brælu. Svo var haldið í kaldaskít út fyrir Vestfirði seint á laugardagskvöld í síðustu viku með viðkomu á Bolungarvík þar sem var tekin olía. Línan var svo lögð í kantinum í Húnaflóa. Þar fengust um tólf tonn sem var landað á Siglufirði á þriðjudag.

Ánægður með sjóhæfni bátsins

„Þetta byrjar því ágætlega þótt auðvitað séu alltaf einhverjir byrjunarörðugleikar. Sjóhæfni bátsins kom mér á óvart. Þetta voru reyndar langar og djúpar veltur en það lagaðist strax og eitthvað var komið í lestina. Við lentum í brælu á leiðinni og þá reyndi dálítið á bátinn. Mér fannst hann bara kom vel út. Báturinn er hár og mikill og líka þungur. Ég fann það þegar við keyrðum á móti veðri að hann stampar ekki. Ég er nokkuð sáttur við sjóhæfni bátsins og held að hann fari bara vel með mannskapinn.“

  • Brúin er afar vel tækjum búin. Aðsend mynd

Fjórir eru í áhöfn og reiknar Sævar Þór með að það verði tvær áhafnir. Til stendur að róa eins og gefur fram að jólum og milli jóla og nýárs. Báturinn er skráður í Raufarhöfn en Sævar Þór býst við að hann haldi sig mest þar sem veiði er góð.

„Við getum þvælst um miðin og búið í bátnum. Það er allt til alls í honum; sérklefar, sturtur, þvottavél, sjónvarp í öllum klefum og bara allur pakkinn. Við getum líka sótt talsvert langt út þegar við tökum tveggja lagna túra. Með góðu kælikerfi eins og er í bátnum gefst alveg kostur á tveimur lögnum.“

  • Íbúðir sjómanna eru snyrtilegar. Aðsend mynd

Farið var í prufutúr snemma í mánuðinum út á Faxaflóa þar sem lagðir voru um 14.000 krókar. Þá kom í ljós að dálítið basl var með beitinguna og í framhaldinu varð fimm daga stopp meðan lagfæringar fóru fram. Engu að síður þurfti þá að landa 3,5 tonnum.

Var með Sögu K í Noregi

Sævar Þór var um langt skeið skipstjóri á Sögu K sem gerð er út frá Honningsvåg nyrst í Noregi. Saga K er 15 metra langur bátur smíðaður af Seiglu á Akureyri. Hann var stærsti plastfiskibáturinn sem hafði verið smíðaður á Íslandi þegar hann var afhentur árið 2012 til norskrar útgerðar. Sævar Þór sigldi honum út og var skipstjóri á honum allt fram til ársins 2019 þegar hann sneri aftur til Íslands.

Háey I ÞH var smíðuð af Víkingbátum og var hannaður af Ráðgarði Skiparáðgjöf. Þetta er stærsti báturinn sem Víkingbátar hafa smíðað. Skráningarlengd bátsins er 13,2 metrar og breidd yfir byrðing 5,5 metrar. Hann er með lestarplássi fyrir 62 stykki af 460 lítra körum. Standandi hæð er í lestinni, rúmlega tveggja metra lofthæð. Þetta auðveldar til muna alla vinnu í lest þar sem menn þurfa ekki að bogra yfir körunum. Aðalvélin er Yanmar, 628 kW.

  • Það væsir sannarlega ekki um menn um borð í Háey, öll aðstaða er góð. Aðsend mynd