„Þetta er ekki gróðafyrirtæki heldur samfélagsverkefni því þetta gæti aldrei borið nokkurn mann í vinnu að vera yfir þessu,“ segir Guðlaug S. Björnsdóttir, sem rekur sjálfsöllu með fisk á í Tákanfirði ásamt manni sínum, Þór Magnússyni strandveiðimanni.

Guðlaug segir að þau hjónin hafi byrjað að selja fisk sem settur var í kæliskáp í plastskýli. Viðskiptavinir noti posa til að greiða fyrir fiskinn. Guðlaug segir viðskiptin hafa aukist statt og stöðugt frá því að þau hófu reksturinn.

„Við erum með fimm hundruð grömm af fiski í vakúmpakkningu. Svo bara borgar fólk,“ segir Guðlaug. „Við erum með siginn fisk og saltfisk og nýjan fisk. Við fáum líka bleikju og lax.

Fiskisúpur og brauð

Ýmislegt fleira er í boði.

„Við gerum líka fiskibollur og fiskisúpu og bökum brauð – þetta er eiginlega orðið svolítið mikið,“ segir Guðlaug. „Þetta gengur ágætlega en er heilmikil vinna hjá okkur og kannski ekki gríðarlega upp úr þessu að hafa en það er bara svo sniðugt að hafa þetta.“

Þór er á strandveiðum og Guðlaug vinnur á bókasafninu þar sem hún segir lítið að gera á sumrin. Fisksalan sé einmitt eingöngu yfir sumarið og hafi byrjað núna í byrjun maí. „Þetta eru heimamenn og ferðamenn,“ segir hún um viðskiptavinahópinn.

Allt árið að undirbúa

Hjónin hafa lagt í nokkra fjárfestingu. „Við vorum fyrst með þetta í plastskýli en það fauk alltaf þannig að við steyptum dálítið plan, keyptum lítið gróðurhús og boltuðum það niður,“ segir Guðlaug.

Þór segir að þótt salan sé aðeins á sumrin fari megnið af árinu í undirbúning. Líkt og Guðlaug segi þá sé þetta samfélagsverkefni sem snúist um að fólk hafi aðgang að ferskum fiski. „Það er þakklætið sem við fáum sem drífur okkur áfram,“ segir Þór Magnússon.