Sigurbjörn segist hafa komið óvenjulega leið inn í sjávarútveginn. Hann byrjaði ungur til sjós, fyrst sem kafari og stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni í þorskastríðunum 1972 og 1975, þegar íslenska landhelgin var færð út í 50 mílur fyrst og síðan í 200 mílur.
„Við vorum keyrðir áfram á áhuganum að koma útlendingunum burt svo við getum nýtt auðlindina sjálfir,“ segir hann um þessa tíma.
Þegar svo 200 mílurnar voru orðnar að veruleika var varðskipunum fækkað. Þau höfðu verið sjö en fóru niður í þrjú, og þá misstu sumir vinnuna.
„Ég var ungur stýrimaður þá og var orðinn fyrsti stýrimaður. Maður sá fram á að það tæki 20-25 ár að verða skipherra. Svo ég ákvað að fara í Tækniskólann. Fór þar í útgerðartækni vegna þess að ég hafði áhuga á því að fara inn í sjávarútveginn og gera gagn þar.“
Að námi loknu fór hann í ár sem Kaupfélagsstjóri Önfirðinga á Flateyri, síðan í sölu sjávarafurða hjá Íslensku umboðssölunni, hélt síðan til Njarðvíkur þar sem hann var aðstoðarframkvæmdastjóri Sjöstjörnunnar sem rak þar bæði útgerð og fiskvinnslu. Því næst hélt hann til Hafskips þar sem hann var deildarstjóri flutningadeildar í nokkur ár.
Datt inn í Granda
„Þar var ég þar til Hafskip fór á hausinn og þá eiginlega dett ég inn í það að verða útgerðarstjóri hjá Granda.“
Grandi hf. varð til í nóvember 1985 með sameiningu Bæjarútgerðar Reykjavíkur og Ísbjarnarins.
„Ástæðan sameiningarinnar var einfaldlega sú að bæði fyrirtækin voru rekin með stórtapi,“ segir Sigurbjörn. „Þar er ég í fimmtán ár, til 2000, og á þeim tíma mótaðist nútíma sjávarútvegur. Það kom kvóti og það þurfti bara að taka til á öllum sviðum. Sem dæmi þá voru 9 skip við sameininguna og innan fárra ára voru þau komin í fimm. Það var ekkert hægt að gera út níu skip á þennan kvóta sem var kominn, svo aflareynslan var eiginlega sameinuð á þau skip sem við vildum hafa áfram. Þannig tók sjávarútvegurinn til sjálfur í sínum ranni. Seldi skip úr landi og svo framvegis, og fyrirtæki sameinuðust,“ segir Sigurbjörn. „Það varð að fara betur með aflann heldur en var gert áður, því hann var ekki takmarkalaus.“
Sköpunarár í sjávarútvegi
„Það gerðist margt á þessum tíma. Menn fóru að senda út í gámum og fengu betra verð. Sú nýjung opnaði markaði og það þýddi að vinnslan þurfti að keppa við það. Hún þurfti þá að fara betur með þann afla sem hún fékk í hendur, borga hærra verð. Það þýddi að hún þurfti að taka til hjá sér.“
Hjá Granda var starfseminni deildaskipt í vinnslu og útgerð, sjálfstæðar einingar. Sigurbjörn var útgerðarstjóri og var þar með kominn í þá stöðu að þurfa að semja við vinnsluna um verð.
„Þeir urðu að svara því á móti að hækka verðið. Það gekk erfiðlega í fyrstu meðan vinnslan var að taka til hjá sér.“
Frystiskipin
Þróunin hélt áfram og næst komu frystiskipin til sögunnar. Grandi hf. breytti Snorra Sturlusyni í frystiskip árið 1988.
„Það var önnur bylting í sjávarútveginum, einn þátturinn í verðmætaaukningu afurðanna. Grálúðan til dæmis varð allt í einu mjög verðmæt sem sjófryst vara. Hausaður karfi var líka orðinn verðmæt vara og þurfti að vera nógu ferskur því það opnaði Japansmarkað. Sjófrystingin opnaði þannig ákveðna möguleika og það veitti vinnslunni líka aðhald. Ef hún vildi fá grálúðu eða karfa þá varð hún að borga. Þetta varð ákveðið drifafl þó það væri innan sama fyrirtækis.“
Útgerð frystiskipa opnuði því ýmsa möguleika.
„Við fórum til dæmis að sækja í úthafskarfann sem Rússar höfðu einokað hérna sunnan við 200 mílurnar okkar. Í framhaldi af því var svo farið í Smuguna í Barentshafi eftir fréttum af mokfiskeríi þar. Það kostaði svo átök við Norðmenn, en svona hefur þetta allt þróast.“
Makríllinn
Árið áður en Sigurbjörn hætti hjá Granda var Örfirisey var ákveðið að kosta leiðangur til að leita að makríl og kolmunna í landhelginni. Fiskifræðingur var um borð.
„Þá mældu þeir göngurnar í fyrsta sinn hérna vestur af landinu. Miklar göngur. Það vakti athygli ráðuneytisins og fleiri aðila að við ættum þarna að eiga aðgang að stórum stofnum sem voru verðmætir. Þetta voru svona sköpunarár fyrir sjávarútveginn.“
Þegar til kom reyndist makríllinn og kolmunninn heldur betur drjúg tekjulind.
„Við vorum að vísu lengi að ná tökum á því eða átta okkur á því að við gætum gengið í hann. Færeyingar voru löngu byrjaðir á þessu. Helsta makrílgangan er á milli Íslands og Færeyja og svo kemur hann norður í Smuguna sem við köllum, norður af 200 mílunum. Þar beið rússneski flotinn og þetta auðvitað sáum við. Við settum Þerney í einn túr og höfðum þá talað við rússneska skipstjóra. Fengum hjá þeim allar upplýsingar um hvar hann kæmi, því við gátum ekki á þeim tíma farið inn í færeysku lögsöguna. Það voru engir samningar um það. Þannig að við vorum þarna eins og Rússarnir, biðum þarna norður af 200 mílunum, og vorum með tilraunatroll frá Hampiðjunni. En það gekk eiginlega allt á afturfótunum. Þetta var 1999, en Íslendingar byrjuðu svo ekki á fullu á þessu fyrr en nokkrum árum síðar. Þá voru komin betri troll og stóru uppsjávarskipin voru komin.“
Kvótakerfið
Snemma á níunda áratugnum kom kvótakerfið og upp úr 1990 var frjálst framsal sett í lög. Þetta varð til þess að breyta mörgu í íslenskum sjávarútvegi.
„Þegar þetta fór að móta sig svona upp úr ´92 þá fer Grandi og aðrir í sjávarútveginum að hafa hagnað af veiðum og vinnslu, góðan hagnað, og það hefur verið æ síðan. Menn fara að geta selt hlutdeild og þá urðu til verðmæti út frá þessum tegundaskiptum þegar verið var að sameina. Hlutdeild skipa í þorski og karfa og svo framvegis var þá verðmetin út frá leiguverðinu í rauninni, og það var bara eins og hlutabréfamarkaðir. Það byrjaði lágt og svo jókst það. Svona þróaðist þessi markaður fyrir aflahlutdeildirnar og það átti líka auðvitað þátt í meiri hagræðingu í sjávarútveginum."
Sameiningar í sjávarútvegi
Kvótakerfið hefur sætt gagnrýni og Sigurbjörn segir að mikið af henni megi rekja til þess hve mikið var um sameiningar fyrirtækja á árum 2005 til 2007.
„Það var mikið um uppkaup á aflahlutdeildum smærri skipa í stærri fyrirtæki þegar verðið var svona hátt, en það var vegna þess að bankarnir höfðu þennan aðgang að ódýrum lánum. Þetta endurspeglaði vitleysuna sem var að gerast í bankakerfinu á þessum tíma. Stærri fyrirtæki gátu fengið lán til að kaupa aflahlutdeildir. Þeir gerðu það þannig að ef þú áttir hlutdeild fyrir, til dæmis 2000 þorskígildi, þá lánuðu þeir þér fyrir 2000 ígildum í viðbót, af því þeir höfðu hald á hinum fyrri 2000 þíg, þarna varð kvótinn veðsettur. Verðið fór upp úr öllu af því það var hægt að fá endalaust lán. Svo þegar hrunið kom þá var mjög stór hluti sjávarútvegsins skuldsettur upp í rjáfur, og allt á erlendum lánum. Það tók mörg ár á eftir að hreinsa til og afskrifa. Þessi leiðindaþróun ýtti undir þessa gagnrýni.“
Menn réðu ekkert við skipstjórana
Lengi vel miðaðist kvótaárið við almanaksárið, og það skapaði að sögn Sigurbjörns ákveðin vandamál.
„Á þessum tíma var mikil þorskgengd á Vestfjarðamiðum, og menn máttu nota flottroll á þær veiðar. Þeir mokuðu þá upp þorskinum í júní og í júlí, og kláruðu árskvótann og voru farnir að kvarta um kvótaleysi í lok júlí. Á sama tíma voru sumarleyfi og aflinn lá þá undir skemmdum víða um land. Þetta er dæmi um það að menn réðu ekkert við skipstjórana þegar þeir komust í að veiða. Mörg dæmi voru um að skip komu að landi með fullfermi eftir þrjá daga og þá er kannski ekki ennþá byrjað á að vinna fyrri farminn. Þessu var þá bara hent upp í hjalla og varð allt ónýtt eða lélegt hráefni á þessum árstíma.“
Fiskveiðiárið fært til
Sigurbjörn segist hafa verið að ræða þessi mál í síma við Þórð Magnússon skipstjóra eitt árið, í byrjun september.
„Ég var að reyna að halda okkar mönnum frá þessu. Við áttum miklu minni þorsk heldur en aðrir, og gátum ekkert verið að fara þarna á flottroll og moka þessu upp. Eiga svo ekkert út árið í meðafla með öðru. Svo það fæddist hugmynd hjá okkur í símtali að það þyrfti bara að breyta kvótaárinu, láta það byrja 1. september.“
Sigubjörn bar síðan tillögu þessa efnis fram á Fiskiþingi þar sem hann var fulltrúi Útvegsmannafélags Reykjavíkur.
„Hún er samþykkt og ráðuneytið tók undir það vegna þess að það væri praktískt að því leytinu að niðurstöðurnar úr vorralli Hafró væru komnar í ágúst. Ég fór svo aftur með þessa tillögu á aðalfund LÍÚ þar sem ég var fulltrúi Reykvíkinga, og svona varð þetta til. Hugmyndir verða auðvitað til alls fyrst.“
Bobbingarnir kvaddir
Seint á níunda áratugnum, 1986 eða 87, fór Sigurbjörn til Nýfundnalands með Guðmundi Gunnarssyni, yfirhönnuði hjá Hampiðjunni sem nú er nýhættur.
„Guðmundur hefur gegnt ótrúlega miklu hlutverki í íslenskum sjávarútvegi og hann vildi prófa í tilraunatanki nýja tegund af trollum sem Hampiðjan hafði þróað. Þar tók ég eftir því að togarafyrirtækin þar höfðu hætt að nota bobbinga en notuðu svonefnda „rock hoppers“. Það voru bara gúmmíhjól skorin út úr einhverjum risadekkjum sem voru flutt inn frá Rússlandi, frá námufyrirtækjum þar. En það voru Skotar sem höfðu byrjað á þessu,“ segir Sigurbjörn.
„Við vorum allir með bobbingalengjur á þessum árum í fótreipunum, svoleiðis járnhlunkana sem eyddu upp öllu stálinu í togþilfarinu. Algengt var að skipta um þilfarsplötur eftir bobbingana , jafnvel þótt slitlistar væru soðnir á . Fyrir utan svo hávaðann um borð þegar verið var að taka þetta inn. Svo þetta var manni ofarlega í huga þegar maður sá þetta. Ég sá þess vegna strax að þetta var svo miklu léttara og betra þannig að ég lét gera svona „rockhoppera“ á tvö troll á togarana. Innan árs var næstum allur íslenski togaraflotinn kominn með þetta.“
Ráðgjöf í Chile
Þar kom Sigurbjörn ákvað árið 2000 að hætta hjá Granda eftir fimmtán ár hjá fyrirtækinu.
„Ég var búinn að fullreyna eiginlega allt sem hægt var að reyna í útgerð, og sagði upp. Eftir það fór ég að vinna við hitt og þetta, aðallega við ráðgjöf.“
Meðan Sigurbjörn var hjá Granda hafði fyrirtækið keypt hlut í útgerðar- og vinnslufyrirtækinu Friosur í Chile. Íslenskir ráðgjafar höfðu verið sendir suður til að vinna hjá Friosur en Sigurbjörn segir eigandann hafa viljað fá íslenskt fyrirtæki sem meðeiganda. Grandi hf. Var þá nýbúinn að kaupa togarann Elínu Þorbjarnar frá Suðureyri, þar sem útgerðin stóð illa.
„Það verður úr að við leggjum skipið inn sem hlutafé til þeirra á verði sem er um 20 prósent af matsverði Friosur. Þetta var 1992 og á árunum ´92 til 2000 fór ég tíu árlega, stundum tvisvar á ári, og var þar í þrjár vikur í hvert sinn, til að færa yfir þekkingu héðan til þeirra. Við réðum líka starfsmenn þangað, bæði skipstjóra og útgerðarstjóra, sem eru ennþá þarna. Eftir að ég hætti hjá Granda vildu Chilemennirnir ráða mig til sín en ég var nú ekki tilbúinn að flytja með fjölskylduna þangað.“
Friosur var með tvo gamla togara og vinnu í suður Chile. og einnig laxeldi og regnbogaeldi í samvinnu við japanskt fyrirtæki.
„Þessir stóru firðir í Suður-Chile eru djúpir og straummiklir og regnbogi er mjög vinsæll í Japan. Þetta japanska fyrirtæki var með leyfi fyrir tveimur eða þremur frystitogurum í Chile.“
Japanska fyrirtækið, sem var móðurfyritæki þessa japanska fyrirtækis í Chile, átti síðan einnig annað dótturfyrirtæki í Argentínu. Úr varð að Sigurbjörn fór að vinna fyrir Japanina, þótt ekki flytti hann til Chile.
„Ég fór að fara með þeim út á sjó á stóru skipunum þeirra. Þetta voru mjög stór skip, yfir 100 metra löng. Þeir voru í surimi-vinnslu, en þeir voru orðnir mjög aftarlega í veiðarfæratækni og aflanematækni og öllu því og vildu fá ráðgjöf. Ég fór með þeim í bæði sílenska fyrirtækinu og svo seinna með argentíska fyrirtækinu.“
Ýmis verkefni
Eftir þetta tók Sigurbjörn að sér ýmis verkefni hér heima tengd sjávarútvegi. Hann gekk árið 2002 til liðs við Scanmar á Íslandi þar sem hann var framkvæmdastjóri í þrjú ár. Árið 2005 tók hann að sér til skamms tíma að stýra daglegum rekstri Brims hf. á Akureyri, sem Guðmundur Kristjánsson hafði þá keypt. Um svipað leyti keypti Sigurbjörn sig inn í Íslenskt sjávarfang og vann að stækkun þess.
Á þessum tíma stofnaði Sigurbjörn einnig með tveimur félögum sínum fyrirtæki til þess að reka fiskiskip við Máritaníu.
„Það var svona ævintýri sem stóð í tvö ár, en það var bara ansi lærdómsríkt. Verkefnið var að finna og kaupa rússneskan togara, laga hann og koma á íslenskum veiðarfærum og íslenskum skipstjóra og hefja veiðar í Máritaníu, þar sem Sjólaskip voru fyrir, sem svo Samherji keypti á einu bretti síðar, en það er nú önnur saga. Við fórum í þetta og það gekk ágætlega að koma þessu af stað og fiska. Við fengum þarna skipstjóra sem hafði verið á Heinaste lengi hjá Sjólaskipum. Þetta var bara góð reynsla og skemmtileg.“
Síðan kom hrun
Þessu ævintýri lauk svo þegar hrunið varð hér og þá fer Sigurbjörn út úr geiranum.
Hann átti lengi erfitt með að fá vinnu og var atvinnulaus í þrjú ár, en fór síðan í hálfsdagsvinnu hjá litlu fyrirtæki.
„Ég seldi hlut minn í Íslensku sjávarfangi bara til þess að lifa, en svo fór ég í að kaupa sjálfur tveggja hæða hús á Flateyri, af því konan mín er frá Flateyri. Ég breytti því í gistihús og við höfum rekið það á sumrin í átta ár núna.“
Það var svo nú í haust sem tilkynnt var að Sigurbjörn væri genginn til liðs við Ekkó-hlera, fyrirtæki Smára Jósafatssonar.
„Það var komið að máli við mig og fyrst fór ég bara að kynna mér aðeins hvað þeir hafa verið að gera. Ég sá fljótlega að hér var um nýjung í í toghleragerð sem má kalla byltingu, sem fellst í því að hlerarnir eru mun stöðugri, dragast með mun minna horni en aðrir hlerar og eru þar af leiðandi mun hagkvæmari í drætti. Að baki þróun þeirra eru fjögur einkaleyfi í gerð þeirra. Ráðgjöfin við EKKÓ toghlera þróaðist síðan í fara í stjórn og taka að sér stjórnarformennsku. Ég samþykkti það vegna þess að ég vildi leggja mitt af mörkum til að koma þessari nýjung í togveiðum á framfæri.“
Framfaraskref fyrir togveiðar
Toghlerar hafa ekki þróast ýkja mikið á seinni árum, að sögn Sigurbjörns Svavarssonar sem nú er genginn til liðs við Ekkó-hlera, fyrirtækis Smára Jósafatssonar. Sigurbjörn segist sannfærður um að hlerarnir frá Ekkó verði mikið framfaraskref fyrir togveiðar. Þeir hafi verið prófaðir í fjórum skipum og reynst vel.
„Gallinn við hlera almennt er að þeir draga í 30 gráðu horni og lætur nærri að um einn þriðji af mótstöðu veiðarfærisins eru hlerarnir. Þessi hönnun Smára er byggð upp eins og vængur, sem þýðir að toghornið verður um 20 gráður og það þýðir að mótstaðan er miklu minni. Veiðarfærið verður léttara í drætti, það verður minni olíueyðsla við veiðarnar, og svo verða hlerarnir miklu stöðugri í drættinum.“
Hefðbundnir hlerar með gleiðara horni eigi það til að þenja sig út og koma svo til baka, sem hefur áhrif á veiðarfærin.
Stöðugri hlerar
„Þessir verða stöðugri, og vegna þess að þeir toga á minna horni verða minni umhverfishljóð sem gerir það að verkum að fiskurinn skilar sér betur inn í veiðarfærið. Annar þáttur gerir það að verkum að þú getur stjórnað því hvort hlerarnir eru í botni eða ekki. Það þýðir að þú ert ekki að skrapa botninn með þeim, sem gerir þeir að verkum að þeir eru óstöðugir og detta ef þeir lenda á mótstöðu, heldur eru dregnir fyrir ofan botninn og það heldur trollinu á sínum stað.“
Hann segir Smára vera búinn að tryggja sér einkaleyfi á nokkrum nýjungum sem að mörgu leyti skipta sköpum.
„Einn þátturinn er loftrás sem gerir það að verkum að ef þú hefur hana opna þá verður til loftrými efst í hleranum í grunnu vatni, þá verður hann stöðugri. Annað er að stundum ef þú ætlar á meira dýpi með sama veiðarfæri þarftu oft að þyngja hlerann. Þá hafa menn þurft að taka þá inn fyrir, setja á þá það sem kallað er skó, járn með boltum neðan á, en hægt er að þyngja EKKÓ hlerinn án þess að taka hleranna inn á dekk. Mjög einfalt og tímasparandi.“
Hann segist finna fyrir auknum áhuga á þessari nýjung.
„Ég er að vonast til þess að við brjótum ísinn dálítíð á næstu tveimur misserum. Það verður fljótt að breytast þegar menn sjá árangurinn.“