Ísfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergur VE lönduðu báðir fullfermi í Vestmannaeyjum sl. mánudag. Afli Vestmannaeyjar var mest ýsa og þorskur en afli Bergs var afar blandaður; ýsa, þorskur, koli, ufsi og fleiri tegundir.

Ragnar Waage Pálmason, skipstjóri á Bergi, segir að þeir hafi komið við hér og þar og allsstaðar hafi verið góður fiskur. Þá hafi veðrið verið gott allan túrinn. Bergur byrjaði að taka tvö prufuhol á Reynisdýpi og á Öræfagrunni en síðan var farið á Ingólfshöfðann, þaðan í Sláturhúsið og loks á Ingólfshöfðann aftur.

Ragnar Waage Pálmason, skipstjóri á Bergi. Mynd/Óskar P. Friððriksson
Ragnar Waage Pálmason, skipstjóri á Bergi. Mynd/Óskar P. Friððriksson

Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, tekur undir með Ragnari og segir að veiði hafi verið góð og veðrið hið blíðasta. „Það er komin vertíð og þetta lítur vel út. Við þurfum að blanda aflann og byrjuðum túrinn með því að kanna með ufsa en vorum síðan á Ingólfshöfða í fínni veiði. Túrinn tók um tvo sólarhringa og þar af fór um það bil sólarhringur í keyrslu,“ segir Birgir Þór.

Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey VE 54. Mynd/Guðmundur Alfreðsson
Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey VE 54. Mynd/Guðmundur Alfreðsson

Gert er ráð fyrir að Vestmannaey haldi til veiða á ný á morgun og Bergur á föstudag.