Það var í mörg horn að líta hjá Ingibjörgu Valgeirsdóttur og Sigurði Péturssyni, sem ásamt Guðmundi Stefánssyni og Þóru Haraldsdóttur eru eigendur Novo ehf., á Seafood Expo sjávarútvegssýningunni í Barcelona í síðustu viku. Novo er eigandi Novo Food í Boulogne-sur-Mer í Frakklandi. Hjá fyrirtækinu starfa um 100 manns. Það flytur inn sjávarafurðir frá Íslandi og víðar til Frakklands, vinnur í neytendapakkningar og selur þar um slóðir.
Á franska básnum
Það vakti athygli blaðamanns að þetta íslenska fyrirtæki var á franska básnum á Seafood Expo. Ingibjörg segir skýringuna þá að eftir 12 ára veru á íslenska svæðinu var ákveðið að staðsetja okkur nær okkar viðskiptavinum. Auk þess að fá þar betri staðsetningu en okkur bauðst á íslenska svæðinu þá í kaupbæti varþátttakan á talsvert hagstæðari kjörum því franska ríkið niðurgreiðir markaðskostnað franskra sjávarútvegsfyrirtækja við sýningarhaldið.
70 manna starfsemi í Boulogne sur Mer
Starfsemin er fyrirferðamest í Frakklandi en Novo ehf. er einnig með skrifstofu á Íslandi sem Ingibjörg veitir forstöðu. Starfsemin þar felst einkum í kaupum á ferskum og frosnum sjávarafurðum frá ýmsum íslenskum fyrirtækjum og kaupum á eldisfisk. Sigurður er líka með fleiri hatta á höfði því hann er stjórnarformaður Sæbýlis í Grindavík, sem hafið hefur umfangsmikið landeldi á sæeyrum og kynnt var á bás Novo Food.
Novo Food er sölu- og markaðsfyrirtæki sem stofnað var í Frakklandi árið 2006 en dótturfyrirtækið Nordvik SAS annast dreifingu á ferskfiskafurðum í Frakklandi sem og netverslun með sjávarafurðir. Um leið er umtalsverð fullvinnsla á íslenskum ferskfiskafurðum í verksmiðju fyrirtækisins, Boulogne Seafood, einkum neytendavörur fyrir smásölumarkaðinn en einnig í stærri pakkningum fyrir heildsölu- og veitingageirann.
Samningar við stærstu keðjurnar
„Við tengjum saman Ísland og Frakkland þar sem er stærsti útflutningsmarkaður Íslendinga fyrir ferskfiskafurðir. Stefna fyrirtækisins hefur verið að fara með vöruna eins nálægt hinum endanlega neytanda eins og hægt er. Til þess að ná þessu markmiði þurfum við að sinna stórmarkaðskeðjunum af kostgæfni. Þær eru kröfuhörðustu og mikilvægustu kaupendurnir á þessum markaði,“ segir Sigurður.
Til að skýra þetta betur út má nefna að um 70% af öllum framleiddum eldislaxi er seldur í stórmarkaðskeðjum í Frakklandi og einungis sjö keðjur hafa þar um 90% markaðshlutdeild. Það er því grundvallaratriði fyrir fyrirtæki eins og Novo Food að ná inn í hillur stærstu keðjanna og halda sér þar.
„Það skiptir máli fyrir fyrirtæki eins og okkar að við höfum samninga við allar þessar stærstu stórmarkaðskeðjur.“
Sigurður segir erfiðleikum bundið að stunda viðskipti með neytendavöru af þessu tagi beint frá Íslandi því grundvallaratriði er að geta afhent vöruna inn á gólf stórmarkaðanna innan við 24 klukkustundum eftir að hún hefur verið pökkuð.
Veltan 7,5 milljarðar kr.
„Boulogne Seafood fiskvinnslan í Boulogne-sur-Mer þjónar því markmiði að uppfylla þessa þjónustu,“ segir Ingibjörg. Þar fer fram vinnsla og pökkun og um 70 manns starfa þar. Velta Novo Food er um 50 milljónir evra, tæpir 7,5 milljarðar ÍSK. Þótt þorskafurðir séu fyrirferðamestar hjá Novo Food er lax í hröðustum vexti. Sigurður segir að það sé í takt við þróun fiskborðanna í stórmörkuðum sem verða stöðugt bleikari á lit. Fyrirtækið kaupir afurðir af öllum sjó- og landeldisframleiðendum á laxi og Novo Food getur sem íslenskt fyrirtæki upprunamerkt vöruna Íslandi.
Stórmarkaðskeðjurnar sem Novo Food er í viðskiptasambandi við gera þá kröfu að fyrirtækið geti sýnt fram að varan sé af íslenskum uppruna. Enn fremur leggja viðskiptavinirnir áherslu á að vörur úr eldi séu með ASC eða Label Rouge vottun og MSC vottun fyrir villtan fisk. Krafa um upprunavottun getur verið snúin gagnvart eldislaxi úr sjókvíum á Íslandi meðan framboðið er ekki stöðugt líkt og núna þegar ekkert íslenskt fyrirtæki er að slátra laxi á tveggja mánaða tímabil og framboð því ekkert.
Hnökrar á framboði
„Það getur reynst snúið þegar búið er að binda samninga við stórmarkaði. Þeir sýna því ekki skilning ef við getum ekki afhent vöruna allt árið um kring. Við verðum þá að snúa okkur til annarra framleiðenda en þá getum við ekki uppfyllt það sem við höfum gengist inn á sem er að afhenda íslenska vöru,“ segir Sigurður. Ingibjörg bindur vonir við að þetta séu byrjunarörðugleikar hjá íslenskum laxaeldisfyrirtækjum og þau komist brátt í þá stöðu að geta afhent fisk alla daga ársins.
„Við kaupum frá Íslandi í dag allar tegundir af bolfiski, uppsjávarfiski og eldisafurðum allt í hring um landið en byrjuðum með mesta áherslu á Vestfirði.“ segir Ingibjörg sem, eins og fyrr segir, stýrir ásamt Guðmundi Óttarssyni innkaupum á fiski á skrifstofunni á Íslandi og sér um að koma honum til vinnslu og dreifingu í Boulogne-sur-Mer.