Aurora velgerðarsjóður hefur tekið við rekstri fjögurra löndunar- og fiskvinnslustöðva í Síerra Leóne ásamt félaginu Neptune Holding og stjórnvöldum í landinu. Samningar þess efnis voru undirritaðir í Freetwon í Síerra Leóne síðastliðinn föstudag, á 8 ára afmæli Auroru velgerðarsjóðs.

Samningarnir gilda til næstu tíu ára og er fjárframlag til verkefnisins 1 milljón bandaríkjadollara til að byrja með eða jafnvirði 135 milljóna íslenskra króna. Það var Birta Ólafsdóttir, stjórnarmaður í stjórn Auroru og dóttir stofnenda sjóðsins, Ólafs Ólafssonar, sem undirritaði samningana fyrir hönd Auroru.

Stöðvarnar fjórar voru byggðar árið 2012 í samstarfi African Development Fund (ADF) og stjórnvalda í Síerra Leóne til að efla sjávarútveg í landinu. Þrátt fyrir góð fyrirheit hafa þær  staðið ónotaðar síðan þá, einkum sökum skorts á þekkingu á slíkum rekstri í landinu. Með samningunum komast þær hins vegur í fulla notkun.

Bátar heimamanna í Sierra Leóne við landfestar.
Bátar heimamanna í Sierra Leóne við landfestar.
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Á vettvangi stöðvanna verður lögð áhersla á að efla þekkingu fiskimanna á veiðiaðferðum, vinnslu á sjávarfangi og dreifingu þess á markað. Leitað verður leiða til að hagnýta fiskiauðlindir landsins á sem sjálfbærastan hátt og auka virði aflans um leið. Á sama tíma standa væntingar til þess að auka framboð á fiski fyrir íbúa Síerra Leóne sem er ein fátækasta þjóð heims. Fiskur er í dag undirstaða prótín neyslu þjóðarinnar, en árleg veiði landsmanna í dag er um 100 tonn. Ráðgert er að um 400 manns muni starfa við stöðvarnar fjórar.