Reikna má með að fjárhæð veiðigjaldsins í ár endi í rúmum tíu milljörðum króna og verði þar með á svipuðu róli og í fyrra. Á næsta ári má hins vegar reikna með að fjárhæð veiðigjaldsins verði töluvert hærri og í raun má reikna með að tekjur ríkissjóðs af veiðigjaldi verði þær mestu frá upphafi, að því er segir í grein í Radarnum, vefriti Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Þar segir að þetta megi lesa úr auglýsingu sem matvælaráðuneytið birti í Stjórnartíðindum í síðustu viku um veiðigjald fyrir árið 2025. Gjaldið er auglýst sem krónur á kíló landaðs óslægðs afla en sú upphæð er nákvæmlega 33% af afkomu fiskveiða á árinu 2023. Ljóst er að upphæð veiðigjaldsins hækkar nokkuð myndarlega á milli ára á langflestum fisktegundum og er hækkunin sérlega mikil á uppsjávartegundum.

23% hærri veiðigjöld án loðnu

Á fyrstu tíu mánuðum ársins hafa íslenskar útgerðir greitt 8.539 milljónir króna í veiðigjald. Það er 2% lægri fjárhæð en þær höfðu greitt fyrir veiðar á sama tímabili í fyrra en þá var heildarfjárhæðin komin í 8.787 milljónir króna. Enginn loðnukvóti var gefinn út á þessu ári sem hefur óhjákvæmileg áhrif á fjárhæð veiðigjaldsins, enda greiddu útgerðir 1.784 milljónir vegna veiða á loðnu á síðasta ári. Sé veiðigjald af loðnu undanskilið í tölunum teiknast upp allt önnur mynd. Þá er heildarfjárhæð veiðigjaldsins rúmlega 23% hærri á fyrstu tíu mánuðunum í ár en á sama tímabili í fyrra.