Á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda, sem hófst í dag, var skotið föstum skotum að Sigurði Inga Jóhannssyni sjávarútvegsráðherra vegna skerðingar á línuívilnun í ýsu á þessu fiskveiðiári. Í ræðu sinni á fundinum gagnrýndi Örn Pálsson, framkvæmdastjóri LS, einnig hvernig staðið hefði verið að breytingum á lögum um stjórn fiskveiða.
„Hvers vegna var verið að breyta lögum um stjórn fiskveiða í skjóli nætur rétt fyrir þinglok í byrjun sumars – sérstaklega sú umgjörð sem verið hefur kringum „pottana?“ sagði Örn. Í máli hans kom fram að Landssamband smábátaeigenda hefði með bréfi dagsettu í gær 15. október óskað eftir að atvinnuveganefnd taki málefnið upp og leggi fyrir Alþingi tillögu um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða þannig að línuívilnun í ýsu verði 30% og jafnframt fái allir dagróðrabátar línuívilnun í ýsu.
Sjávarútvegsráðherra ávarpaði fundinn og svaraði gagnrýni vegna línuívilnunar í ýsu. Hann benti á að í upphafi hefði línuívilnun verið 0,64% til 1,4% af heildarýsuveiði. Á síðasta fiskveiðiári hefði þetta hlutfall verið komið í um 5,5%. Á þessu fiskveiðiári hefðiþetta hlutfall verið 3,62%. Ráðherra tók fram að hann myndi að einhverju leyti taka tillit til sjónarmiða LS og hugmyndir væru uppi um að auka línuívilnun í ýsu úr 1.100 tonnum í 1.207 tonn.
Ráðherra gat þess í ræðu sinna að á næstu vikum yrðu væntanlega lögð fram frumvörp um breytta stjórn fiskveiða. Þar væri unnið eftir niðurstöðum sáttanefndarinnar svokölluðu frá árinu 2010. Áfram yrði stuðst við aflamarkskerfi við stjórn fiskveiða. Samið yrði við útgerðir um aflaheimildir til lengri tíma. Kveðið yrði skýrt á um það að ríkið væri eigandi veiðiréttar úr auðlindum hafsins. Fyrir samninginn skyldi greiða gjald. Við útfærslu á gjaldinu yrði leitast við að hafa það afkomutengt.