Niðurstöður meistararannsóknar um áhrif sjókvíaeldis á tvo hópa lífvera, götunga og skelkrabba sýndu að tegundafjölbreytileiki skelkrabba og götunga minnkaði með aukinni nálægð við eldiskvíar og á sama tíma fækkaði einnig einstaklingum af hópi götunga. Sagt er frá meistararannsókninni á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar. Þar kemur einnig fram að í sýnum sem tekin voru fundust níu nýjar tegundir skelkrabba sem ekki hafa áður fundist við Ísland. Þó má benda á að skelkrabbar eru ekki mikið rannsakaðir hér við land enn sem komið er en vonandi verður breyting þar á. Frekari sýnataka gæti leitt betur í ljós algengi þessara tegunda ásamt útbreiðslu þeirra í sjónum.
Rannsakað í Arnarfirði
Bryndís Andradóttir lauk nýlega meistaraprófi við jarðvísindadeild Háskóla Íslands. Hún rannsakaði áhrif sjókvíaeldis á tvo hópa lífvera, götunga (Foraminifera) og skelkrabba (Ostracods) í Arnarfirði. Markmið rannsóknarinnar var að greina hvort og hvernig þessar lífverur bregðast við álagi frá sjókvíaeldi í firðinum. Bryndís safnaði sýnum við eldissvæðið Haganes í Arnarfirði, en auk þess notaði hún sýni sem safnað var í rannsóknarleiðöngrum Hafrannsóknastofnunar.
Götungar eru einfrumungar sem mynda skel úr ýmsum ólífrænum efnum, en skelkrabbar eru fjölfrumungar sem tilheyra hópi krabbadýra. Báðir þessir lífveruhópar hafa verið mikið notaðir í jarðfræðirannsóknum og fornvistfræðilegum rannsóknum (t.d. í vötnum og sjó) til að meta ýmsa þætti eins og fornloftslag og umhverfisástand bæði í nútíð og fortíð. Þessar lífverur eru líka notaðar sem vísar á vistfræðilegt ástand í vatni og sjó og snýr rannsóknin þá fyrst og fremst að lifandi einstaklingum.
Lífræn mengun, kopareitrun og lyfjafóður
Álag frá sjókvíaeldi getur verið tilkomið á margvíslegan hátt, t.d. vegna lífrænnar mengunar (fóðurleifar og skítur), eitrunaráhrifa kopars sem er stundum notuð sem ásætuvörn, og vegna lyfjafóðurs og lyfjabaða gegn laxa- og fiskilús. Hvíld milli eldislota hjálpar til við að draga úr áhrifum af sumum þessara þátta.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að tegundafjölbreytileiki skelkrabba og götunga minnkaði með aukinni nálægð við eldiskvíar og á sama tíma fækkaði einnig einstaklingum af hópi götunga. Því var öfugt farið hjá skelkröbbum, því eftir því sem nær dró eldiskvíum fjölgaði einstaklingum í hópi skelkrabba þrátt fyrir fækkun tegunda. Leiða má líkur að því að tækifæristegundir, sem eru þolnari gagnvart álagi, nái fótfestu í grennd við eldissvæðin og fjölgi sér þar. Það getur skýrt mikinn fjölda einstaklinga skelkrabba þrátt fyrir tegundafæð. Skelkrabbar eru hreyfanlegir og geta fært sig til á botni eftir því hvaða umhverfisaðstæður eru heppilegastar ólíkum tegundum. Mögulega sækjast vissir hópar eða tegundir skelkrabba í lífrænar leifar sem falla til vegna eldisins. Frekari rannsóknir gætu leitt þetta betur í ljós. Ólíkt skelkrabba, eru götungar einfrumungar í skel og ófærir um að hreyfa sig úr stað. Þeir berast um með straumum og geta því ekki stjórnað sínum fæðuslóðum. Líklega fækkaði götungum vegna óæskilegra umhverfisaðstæðna sem komu til vegna eldisins (t.d. lífrænt álag, lyfjaleifar eða ásætuvarnir) og er slíkt ekki óþekkt hjá mörgum lífverum séu aðstæður þannig.
Fyrsta rannsókn af þessum toga á Íslandi
Í sýnunum fundust níu nýjar tegundir skelkrabba sem ekki hafa áður fundist við Ísland. Þó má benda á að skelkrabbar eru ekki mikið rannsakaðir hér við land enn sem komið er en vonandi verður breyting þar á. Frekari sýnataka gæti leitt betur í ljós algengi þessara tegunda ásamt útbreiðslu þeirra í sjónum.
Þessi rannsókn er sú fyrsta af þessum toga hér á landi. Hafrannsóknastofnun vaktar botndýr og efnafræði sets en hefur ekki stundað rannsóknir á götungum eða skelkröbbum. Framlag Bryndísar er því kærkomin viðbót við rannsóknir á umhverfisáhrifum sjókvíaeldis og sýnir að aukinna rannsókna á þessum lífverum er þörf, sérstaklega í tengslum við álag eins og frá sjókvíaeldi eða öðrum mannlegum athöfnum.
Prófdómari var Rakel Guðmundsdóttir sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun en leiðbeinandi Bryndísar var Steffen Mischke prófessor við jarðvísindadeild Háskóla Íslands. Guðmundur Guðmundsson flokkunarfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands var Bryndísi innan handar með greiningar á götungum. Með þessari rannsókn er kynnt ný aðferð til að meta umhverfisáhrif frá sjókvíaeldi með rannsóknum á lífverum sem eru misviðkvæmar fyrir umhverfisbreytingum.