Ólöglegar veiðar á tannfiski í höfunum á suðurhveli jarðar hafa lengi verið vandamál. Eitt þessara „ræningjaskipa“, Kunlun að nafni, sem eftirlýst var af Interpol, var gripið í Phuket í Tælandi á dögunum með tannfiskafla í lestinni að verðmæti yfir 700 milljóna íslenskra króna.

Skipshöfnin hélt því fyrst fram að skipið væri skráð í Indónesíu en breytti því svo í Miðbaugs-Gíneu. Hvorugt þessara ríkja kannast við skipið á sínum skipaskrám og því telst það ríkisfangslaust. Í áhöfn skipsins eru 35 manns, þar af fjórir Spánverjar, skipstjóri frá Perú og 30 skipverjar frá Indónesíu og Tælandi.

Skipstjórinn gaf tælenskum yfirvöldum upp að aflinn væri 182 tonn af fisktegundinni risa-vartari, en við nánari skoðun kom í ljós að þetta voru 182 tonn af tannfiski.