Sameiginlegur loðnuleiðangur Íslendinga og Grænlendinga stendur nú yfir með þátttöku hafrannsóknaskipanna Árna Friðrikssonar og Tarajoq. Fundist hefur ungloðna sem ætti að verða uppistaðan í veiðum 2024/2025

Árni Friðriksson lét úr höfn síðastliðinn þriðjudag en Tarajoq 21. ágúst síðastliðinn. Leiðangursstjóri um borð í Árna Friðrikssyni er Birkir Bárðarson fiskifræðingur. Í sameiningu eru skipin við rannsóknir úti fyrir norðvesturlandi og landgrunninu við Austur-Grænland.

Á suðvesturhluta svæðisins hefur mest sést af ungloðnu sem Birkir segir að sé svo sem viðbúið. Mestmegnis sé þetta eins árs gömul loðna úr þar síðustu hrygningu. Magnvísitala þeirrar ungloðnu gefur vísbendingu um hvað megi búast við á vertíðinni 2024/2025. Magntölur verða þó ekki birtar fyrr en í lok leiðangursins.

„Eftir því sem við förum austar og norðar á næstu tveimur vikum eigum við von á því að sjá fullorðnu loðnuna sem er þá veiðistofninn fyrir komandi vertíð,“ segir Birkir.