Noregur flutti út sjávarafurðir fyrir 24,8 milljarða (510 milljarða ISK) á fyrri helmingi ársins. Þetta er um 1,2 milljarða samdráttur miðað við sama tíma í fyrra, eða um 4,8%, samkvæmt upplýsingum frá Norges sjømatråd.
Eins og fram hefur komið í Fiskifréttum dróst útflutningsverðmæti norsks lax saman um 6,5% en útflutningur á laxi náði 14 milljörðum NOK á tímabilinu og er laxinn langmikilvægasta sjávarafurð Norðmanna.
Einnig dróst útflutningur á síld saman um 4%, nam 2,2 milljörðum NOK. Útflutningur á makríl nam hins vegar 1,1 milljarði og jókst um heil 45%.
Þá dróst útflutningur á saltfiski saman og sömuleiðis útflutningur á ferskum fiski en aukning varð í útflutningi á frystum fiski.