„Verulegar tæknibreytingar hafa orðið í allri virðiskeðju sjávarafurða á síðustu áratugum,“ segir í nýrri skýrslu um stöðu og horfur í íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi.

Skýrslan er gerð að beiðni Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, en höfundar eru Sveinn Agnarsson, Sigurjón Arason, Hörður G. Kristinsson og Gunnar Haraldsson.

Mikill vöxtur hefur verið í hliðar- og stoðgreinum sjávarútvegsins og kveikjan að þessari þróun er í skýrslunni sögð hafa verið náið samstarf milli sjávarútvegsfyrirtækja og fyrirtækja í tækni- og þekkingargreinum.

Einna mestur hefur vöxturinn verið í þeim greinum sem hafa verið að þróa „nýjar tækja-, gagna-, tækni- og umbúðalausnir fyrir fiskveiðar, vinnslu og flutning. Hér má nefna aðferðir við að ofurkæla fisk til að fá hámarksgæði, vinnsluaðferðir sem sníða flök nákvæmlega eftir óskum kaupenda, aðferðir til að kortleggja veiðiálag og lausnir til að koma fiski á markað með sem minnstu kolefnisfótspori án þess að það bitni á gæðum.“

Eins og sjá má í töflu hér á síðunni, sem fengin er úr skýrslunni, voru árið 2018 alls 84 fyrirtæki í þessum hliðar- og stoðgreinum. Fjöldi ársverka í þessum fyrirtækjum var 2.540 og samanlagðar rekstrartekjur nærri 78 milljarðar.

„Ólíkt er milli flokka hvort um er að ræða samanlagðan hagnað eða tap hjá fyrirtækjum í hverjum flokki, en á heildina litið er hagnaður sem hlutfall af tekjum nálægt núlli. Mörg þessara fyrirtækja eru ung og á uppbyggingarstigi og hafa lagt mikla fjármuni í dýra rannsókna- og þróunarvinnu.“

Vaxtarmöguleikar

Mikið af þessum nýju störfum sem tengjast nýsköpun og tækniþróun eru utan höfuðborgarsvæðisins og mörg krefjast þau sérfræðimenntunar. Fyrirtækin hafi því „ekki aðeins haft jákvæð áhrif á greinina og efnahag Íslands, heldur líka fjölmörg samfélög víðsvegar um landið.“

Þá eru enn sögð vera mikil tækifæri vera til vaxtar í sjávarútvegi, fiskeldi og tengdum greinum. Mögulegt sé að auka verulega útflutningsverðmæti þessara greina á næstu árum.

„Að gefnum forsendum, sem lýst er nánar í skýrslu þessari, gæti virði framleiðslu allra þessara greina aukist í um 440 milljarða kr. árið 2025 og í 615 milljarða kr. árið 2030. Virði framleiðslunnar árið 2030 yrði þannig 85% meira en virði framleiðslunnar árið 2019,“ segir þar.

Bylting

„Vert er að geta sérstaklega þróunar í vinnslu bolfisks en auk þess mikilla breytinga í veiðum og vinnslu uppsjávarfiska, en stærsti hluti síldar-, loðnu-, og makrílaflans fer nú til vinnslu til manneldis,“ segja skýrsluhöfundar.

Þá hefur orðið bylting í nýtingu hliðarafurða sjávarútvegs: „Margar afurðir sem áður var hent eða voru nýttar til að framleiða mjög verðlitlar vörur eru nú orðnar margfalt verðmætari en jafnvel dýrustu hlutar fiskflaksins.“

Tekin eru dæmi af nýtingu á roði í lækningavörur og fæðubótarefni. Einnig hafa ensím úr slógi verið nýtt í lækningavörur til að stemma stigu við kvefi.

Einnig hefur sterkur iðnaður skapast „í kringum þurrkun og niðursuðu á aukaafurðum, þar sem sérstaða Íslands í orku er nýtt en einnig hreinleiki hafsins sem er meiri en þekkist í kringum flest önnur lönd. Má þar t.d. nefna að mun lægra magn af þrávirkum lífrænum efnum er í íslensku sjávarfangi.“

Þá hafa sprottið upp fyrirtæki sem eru að nýta nýja lífmassa, eins og t.d. stórþörunga, á nýjan hátt og fyrirtæki sem eru að notfæra sér þá möguleika sem eru á Íslandi til að rækta örþörunga og framleiða innihaldsefni í fóður og fæðubótarefni.

Margt býr að baki

Í skýrslunni segir að margt búi að baki allri þessari nýsköpun: „Fiskveiðistjórnunarkerfið hefur ýtt undir nýsköpun þar sem það hvetur til hámörkunar á nýtingu, gæðum og verðmætasköpun sjávarfangs. Hliðarafurðir sem áður þóttu verðlitlar eða jafnvel verðlausar hafa með samstilltu átaki vísindasamfélagsins, frumkvöðla, sjávarútvegsfyrirtækja og yfirvalda orðið að mjög verðmætum afurðum, jafnvel alveg einstökum í sínum flokki. Þessi mikla áhersla á að ná sem bestri auðlindanýtingu hefur kallað á nýjar lausnir og nálganir sem hafa dregið að fyrirtæki og sérfræðinga úr ólíkum greinum.“

Þá hefur samstarf greinarinnar við vísindasamfélagið verið mikið og öflugt auk þess sem öflugt stuðningskerfi er í formi styrkja og skattaaflsáttar.

„Fyrirtæki og yfirvöld eru vel meðvituð um að það þurfi að skjóta fleiri stoðum undir atvinnulíf landsins til að auka hagsæld landsins til framtíðar. Aukin nýting og verðmætasköpun, og fjölbreyttari atvinnustarfsemi getur einnig mildað höggið sem getur komið í kjölfar niðursveiflu í sjávarútvegi.“