„Með þekkinguna að vopni er hægt að hámarka virði og hagkvæmni íslenskrar matvælavinnslu,“ segir Hákon Stefánsson, stjórnarformaður í nýútkominni ársskýrslu Matís.

„Nærtækast er að líta til þeirrar verðmætaaukningar sem orðið hefur í þorskvinnslu á Íslandi.“

Í skýrslunni er farið yfir það helsta sem rannsóknir Matís beindust að á árinu 2022, og þar gætir margra grasa.

Hvað botnfisktegundir varðar hafa áherslur innan Matís meðal annars beinst að bættri nýtingu hliðarhráefna og vannýttra tegunda.

„Niðurstöður verkefnanna benda til þess að mikil tækifæri séu til staða til í að fanga verðmæti úr vannýttu hráefni bolfiskvinnslna með tiltölulega einföldum og hagkvæmum aðferðum við að safna og/eða vinna efnið,“ segir í skýrslunni.

Tugir botnfiskverkefna

„Alls voru 36 verkefni skilgreind sem botnfiskverkefni á árinu en þau voru öll unnin í nánu samstarfi stóran og fjölbreyttan hóp fyrirtækja í sjárvarútvegi og rannsóknaraðila. Áhersla í verkefnum sem snúa að vinnslu hliðarhráefnis og vannnýttra tegunda var aðallega aukin nýting próteina til manneldis úr t.d. vannýttum tegundum á borð við gulllax og hliðarstrauma eins og þorsk- og karfahausa og prótein sem hægt er að vinna úr vatni sem fellur til við vinnsluna.“

Eitt af því sem Matís stefnir að er að setja upp lífauðlinda- og matvinnsluver til að nýta og auka bæði gæði og verðmæti hliðarstrauma matvælaframleiðslunnar í landinu.