Bretinn Ross Edgley ætlar að synda 1.000 mílur á 100 dögum hringinn í kringum Ísland, í allt að 130 feta öldum og stundum samhliða háhyrningum. Hann tekur þátt í verkefninu Historic Open Water Challenge og er í samstarfi við Hafrannsóknastofnun, Matís og Háskóla Ísland m.a. til að stuðla að aukinni þátttöku almennings í vísindastarfi. Sagt er frá þessu á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar.
Bráðlega mun ofursjósundmaðurinn Ross Edgley reyna í fyrsta sinn að synda meira en 1.000 mílur (1.610 km) meðfram allri strandlengju Íslands. Samhliða mun hann stunda mikilvægar rannsóknir í tengslum við verndun hafsins. Ross leggur úr höfn í Reykjavík 16. maí og stefnir á að synda réttsælis hringinn í kringum Ísland.
Brautryðjandi lýðvísinda
Ross leiðangurinn er meira en bara fyrsta þolraun sinnar tegundar í heiminum. Með sundleiðangri sínum hringinn í kringum Ísland er Ross einnig brautryðjandi rannsókna sem kölluð eru lýðvísindi (e. Citizen Science) en eins og nafnið vísar til þá eru þau vísindi skilgreind þannig að almenningur safnar og greinir gögn sem tengjast náttúrunni, oftast sem hluti af samstarfsverkefni með vísindafólki.

Hafrannsóknastofnun og Matís eru í samstarfi við teymi Ross, með fulltingi BioProtect verkefnisins sem styrkt var árið 2024 af ESB, til að rannsaka líffræðilegan fjölbreytileika í hafinu umhverfis Ísland. Hlutverk BioProtect verkefnisins er að þróa verkfæri til að vernda og endurheimta vistkerfi og líffræðilegan fjölbreytileika til að ná markmiðum COP22, svo sem að tryggja verndun 30% af hafinu okkar fyrir árið 2030.