„Ég vil meina að Íslendingar geti orðið algerlega til fyrirmyndar í endurvinnslumálum, og það eigum við að gera. Við eigum að standa upp og segja: Við ætlum að varðveita okkar hreinleikaímynd, sem er jú grunnurinn að sölu á okkar vörum, okkar matvælavörum. Það verðum við að varðveita og við verðum að hugsa til þess öll.“

Þetta segir Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis hf., í stuttu símaspjalli við Fiskifréttir nokkrum dögum eftir að hélt erindi á fullnýtingarráðstefnunni Fish Waste for Profit, sem haldin var á Grand Hótel Reykjavík 10. og 11. apríl. Þar ræddi hún metnaðarfull áform fyrirtækisins í endurvinnslumálum og fullnýtingu alls hráefnis sem notað er.

„Ég er viss um að ekkert ykkar hendi ruslapoka inn í garð nágranna ykkar. Hvers vegna ættum við sem þjóð að gera slíkt? Við eigum að sjá um okkar eigin vandamál, og það tafarlaust,“ sagði hún í erindi sínu á ráðstefnunni.

Sú sýning hefur verið haldin þriðja hvert ár. Tvisvar áður hefur fullnýtingarráðstefna verið haldin í tengslum við sjávarútvegssýninguna, undir forskriftinni Fish Waste for Profit, en þetta er í fyrsta sinn sem fullnýtingarráðstefnan er ekki beintengd móðurráðstefnunni.

Ógn úr hafinu
Fyrir sex árum þurfti Lýsi hf. að verja 500 milljónum króna í fjárfestingu á hreinsibúnaði sem fjarlægir svonefnd þalöt úr lýsinu.

Þalöt eru efni sem notuð hafa verið til að mýkja plast. Á vef Umhverfisstofnuanr kemur fram að þalöt hafa verið notuð til dæmis í gólfvínil, matarumbúðir og sjúkragögn. „Þau hafa fundist í mælanlegu magni í börnum og fullorðnum og talið er að þetta efni geti haft áhrif á þroska kynfæra drengja,“ segir Umhverfisstofnun.

„Við vitum öll hvaðan þetta kemur,“ sagði Katrín. „Það er óþolandi að þurfa að fjárfesta fyrir 500 milljónir til þess eins að reyna að bæta úr þeim skaða sem þegar var orðinn að veruleika.“

Betra hefði verið að koma í veg fyrir tjónið áður en það var orðið of seint.

Eftir þessa reynslu hefur Lýsi hf. lagt margeflda áherslu á umhverfismál og endurvinnslu. Katrín talarhreinlega um ástríðu í þessum efnum.

„Við ætlum að veita fé til að byggja þetta fyrirtæki upp í þá stærð að það geti tekið við öllu plasti sem til fellur hér, að minnsta kosti á Suðvesturhorninu,“ segir Katrín.

Pure North hefur einbeitt sér að endurvinnslu á heyrúlluplasti og plastfilmu, en með stækkuninni verða næstu skrefin þau að endurvinna harðplast. Að því búnu verður tekið við umbúðaplasti og að lokum veiðarfærum.

„Að minnsta kosti átta millljónir tonna af plasti enda í hafinu á hverju ári,“ sagði Katrín. Þar af sagði hún meira en 33 þúsund tonn af veiðarfærum fara í Norður-Atlantshafiðhafið, „bara frá Noregi, Íslandi, Færeyjum, Skotlandi og Grænlandi.“

Katrín sagði nauðsynlegt að bregðast við þessu án tafar.

„Þetta eru stórar tölur.“

Ísland verði fyrirmynd
„Ég vil meina að Íslendingar geti orðið algerlega til fyrirmyndar í endurvinnslumálum. Við eigum að standa upp og segja: Við ætlum að varðveita okkar hreinleikaímynd. Hún er jú grunnurinn að sölu á okkar vörum, okkar matvælum.“

Í framhaldi af því veltir hún upp kolefnisspori okkar, heildarkolefnislosun Íslendinga.

„Þá sér maður að votlendið er 70 prósent af þessari losun, og þá hugsar maður: guð minn góður! Við þurfum að sýna ábyrgð þarna og gera eitthvað. Og við þurfum að flýta okkur að gera það. Ísland á bara að vera til fyrirmyndar og varðveita sitt góða orðspor sem hreint land. Við eigum að fara í að moka ofan í skurði og ná þannig þessum 70 prósentum til baka. Ef eitthvað vantar upp á eiga fyrirtæki eins og Lýsi að fara og moka ofan í skurði, eða fá Votlendissjóð til að gera það fyrir okkur. Við kaupum þá af Votlendissjóði mismuninn ef okkur vantar eitthvað upp á. Við þurfum eiginlega öll að fara að hugsa svoleiðis ef ekki á illa að fara.“

Hún segir að þegar aðeins 30 prósent verða eftir af núverandi losun, þá séu bílarnir 60 prósent af því sem eftir er.

„Þá erum við svo gott sem komin með þetta.“

Hún segir Lýsi raunar hafa lagt áherslu á fullnýtingu og virðingu fyrir náttúrunni í tuttugu ár.

„Við höfum haft tækifæri til að stíga fram og grípa snemma til aðgerða. Við viljum halda því áfram,“ segir hún. „En þegar talað er um virðingu held ég að flestir geti verið sammála um að eitthvað er að breytast í hafinu.“

Nýja þurrkverksmiðjan
Á ráðstefnunni skýrði Katrín einnig frá því að Lýsi hf. sé í þann veginn að taka í notkun nýja þurrkverksmiðju í Þorlákshöfn. Nýja verksmiðjuhúsið er 25000 fermetrar, með átta þurrkklefum og annar verksmiðjan 12 til 15 þúsund tonnum á ári.

Að sögn Kristínar Pétursdóttur, forstjóra Lýsis, hefur það staðið til í nokkur ár að reisa nýja verksmiðju í Þorlákshöfn.

„Gamla verksmiðjan sem við höfum rekið síðan 1991, hún er staðsett inni í bæ og er í ríkjandi átt þannig að það hefur staðið hálfgerður styr um reksturinn,“ segir hún. „Lýsi hf vill vera í sátt við umhverfi sitt þannig að árið 2016 tókum við ákvörðun um að reisa nýja verksmiðju.“

Nýja verksmiðjan er risin og verður tekin í notkun síðar í vor.

„Hún er um 3,5 km frá Þorlákshöfn og er ekki í ríkjandi vindátt þannig að það á ekki að hafa áhrif á neinn. Þetta stendur bara út á sjó.“

Hún segir áherslurnar í Þorlákshöfn allar tengjast þeirri hugsun sem nú er ráðandi í fyrirtækinu.

„Það er að sýna náttúrunni virðingu með því að hámarka það efni sem hún gefur okkur. Það erum við að gera í þurrkinum. Við erum að gera það í lýsinu. Við erum að gera það í niðursoðinni þorsklifur á Akranesi og Ólafsvík, þar sem við erum að sjóða niður 25 milljónir dósa. Síðan erum við að taka við öllu slógi sem menn vilja losna við. Það hökkum við niður og búum til úr því meltu sem við flytjum síðan út. Nú eru komin hátt í tíu þúsund tonn af því á ársbasis sem er bara heilmikið af því sem áður var bara hent.“

Peningalyktin fer í vor
Kjartan Óafsson, framkvæmdastjóri fiskþurrkunar Lýsis hf. í Þorlákshöfn, segir að með nýju verksmiðjunni verði aðstæður allar margfalt betri, bæði til þurrkunar og fyrir starfsfólkið. Afköstin aukist um 30 til 40 prósent hið minnsta. Þurrkklefarnir eru átta og þurrkunin gengur hraðar fyrir sig.

„Auðvitað breytist þurrkunin sjálf ekkert. En þetta er nýr búnaður og ég er fljótari að þurrka. Í dag er ég fimm sólarhringa að þurrka í klefunum en á að verða þrjá og hálfan sólarhring þegar allt er komið á fulla ferð,“ segir hann.

Hann segir miklu meira loftflæði verða í gegnum klefana og allt verður það tölvustýrt, bæði loftflæðið, hitinn, rakinn og fleira.

„Við erum með þetta í dag í þremur húsum í Þorlákshöfn. Öll starfsemin í þessum þremur húsum fer inn í þetta hús.“

Vegna aukinna afkasta þarf einnig að bæta við starfsfólki.

„Við erum 25 í dag,“ segir Kjartan. „Það verða 30 til 35 manns sem koma til með að vinna hjá okkur þegar allt er komið á fulla ferð.“