Fulltrúar Hafrannsóknarstofnunar, Stjörnu-Odda og Brims héldu í lok mars á gullkarfamið vestan og suðvestan lands til að athuga hvort hægt væri að bergmálsmæla gullkarfa á þekktum gotstöðvum með samanburði afla í botnvörpu og bergmálsgilda. Brim hf. hafði frumkvæði að leiðangrinum og lagði Viðey RE til í verkefnið. Togað var með opið troll eða fráleyst í nokkrum tilfellum og Fiskgreinir var þá notaður til að greina hvaða fór í gegnum trollið.

Hafrannsóknastofnun segir að of snemmt sé að tala um niðurstöður úr þessum leiðangri, en ljóst sé „að þegar gullkarfi hnappast á gotstöðvar gæti verið færi á að bergmálsmæla hann, ef vilji er til að þróa tækni og aðferðir, og búa út skip til leiðangurs.“

Tilraunin gekk meðal annars út á það að bera saman afla sem kom í botnvörpu og bergmálsmælingar sem gerðar voru samtímis. Í staðinn fyrir að veiða karfann alltaf í botnvörpuna, þá var gripið til þess ráðs í sumum tilfellum að toga með opinn poka en nota Fiskgreini til þess að fylgjast jafnóðum með því sem kom inn í pokann.

„Um er að ræða myndavélabúnað sem settur er í trollið aftarlega á belg og tekur myndir af innkomu og sýnir hana jafnharðan. Markmiðið er að geta greint fiska sem fara í gegn til tegundar og stærðarmæla þá nánast um leið,“ segir í frásögn Hafrannsóknastofnunar.

Það er fyrirtækið Stjörnu-Oddi sem hefur þróað Fiskgreini meðal annars í samstarfi við Hampiðjuna og Hafrannsóknastofnun með styrk frá Tækniþróunarsjóði, en af hálfu Hafrannsóknastofnunar hefur Haraldur Arnar Einarsson fiskifræðingur haldið utan um verkefnið.

Haraldur segir tvær útgáfur hafa verið þróaðar, önnur er öflugri og verður notuð í vísindaskyni en hin er meðfærilegri og hugsuð til notkunar á fiskiskipum.

„Við erum komnir allvel á veg með þetta. Síðasti hlekkurinn í þessari verkefnalotu verður núna í haust þar sem við ætlum að prófa þennan vísindahluta, sannreyna hversu vel það virkar og safna meiri gögnum. Þetta er alveg að virka.“

Sér möguleikana

Sigurður Þór segir leiðindaveður hafa verið til trafala í upphafi leiðangurs.

„Við vorum of bráðir að fara út kannski því skilyrði voru ekki góð til bergmálsmælinga í upphafi, en leiðangrinum voru settar ákveðnar tímaskorður.

Þetta séu samt bara upphafsathuganir.

„Ég sé möguleika í þessu, en það þarf meiri yfirlegu á þessum slóðum. Við þyrftum að vera þarna allan sólarhringinn til að geta fylgst með lóðréttri hreyfingu karfans, en eins og sjómenn vita er mikil dægursveifla í aflabrögðum á karfaveiðum. Litli karfi virðist líka vera vaxandi stofn og okkur sýndist að megnið smákarfanum sem við sáum væri litli karfi. Það voru gjótandi hrygnur þarna með sömu einkenni og 10 til 20 cm stærri gullkarfahrygnur,“ segir Sigurður Þór.

Torfufiskur

Töluverð óvissa hefur verið í stofnmati gullkarfa undanfarin ár, að því er fram kemur í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.

„Gullkarfi er torfufiskur og því fæst stærsti hluti hans í fáum, stórum togum sem leiðir til tilviljanakenndra sveiflna í vísitölum milli ára. Aldursgreindur afli sýnir mjög litla nýliðun, sem er í samræmi við upplýsingar úr stofnmælingum,“ segir í nýjustu ráðgjöfinni um gullkarfaveiðar.

„Málið er að þegar karfi er í hrygningu,“ segir Haraldur, „gjarnan uppi á hólum eða í brekku eða einhverju slíku, þá er það þannig að þú getur verið að fá 30 tonn á jafnvel fimm mínútum. Það er eitthvað sem sjómaðurinn vill alls ekki fá en Fiskgreinirinn gaf okkur tækifæri til að toga inn í þessum þéttleika. Við vorum þá bara með pokann opinn og gátum sannreynt að þarna var mikið af gullkarfa og líka mikið af litla karfa og eitthvað af öðrum tegundum.“

Eitt skref í einu

„Okkur vantar bara meiri gögn. Við þurfum að taka fullt af vídeói og kenna gervigreindinni að þetta er karfi. Þessi fiskur er karfi og þessi fiskur er litli karfi, og við þurfum að segja tölvunni jafnvel þúsund sinnum. Þegar það er komið þá getur hann greint þetta sjálfur og mælt og þá færðu upp á skjáinn: karfi og þetta er lengdardreifingin.“

Hann segir þetta vera langtímaverkefni, því að markmiðið sé að á endanum verði hægt að velja sjálfkrafa með tölvubúnaði hvaða fiskur á að koma í trollið.

„Ef þú ætlar bara að veiða ufsa en engan karfa, þó það sé fullt af karfa á veiðislóðinni, þá síarðu bara karfann út með stýrðu hliði og tekur bara ufsann. Þetta er framtíðin, en það eru nokkur ljón á leiðinni. Þótt fólk haldi að gervigreindin labbi af stað og taki yfir heiminn, þá er það ekki alveg þannig. Við þurfum að komast á sjó og safna gögnum, og það þarf að gerast smátt og smátt. Við einbeitum okkur auðvitað að megintegundum fyrst, og svo verður í framtíðinni hægt að bæta fleiri tegundum við. Það þarf að taka tækniskrefin eitt og eitt í einu, og byggja ofan á það. Átta sig á því hvert maður ætlar. Það þýðir ekkert að éta fílinn í einum bita.“

Fulltrúar Hafrannsóknarstofnunar, Stjörnu-Odda og Brims héldu í lok mars á gullkarfamið vestan og suðvestan lands til að athuga hvort hægt væri að bergmálsmæla gullkarfa á þekktum gotstöðvum með samanburði afla í botnvörpu og bergmálsgilda. Brim hf. hafði frumkvæði að leiðangrinum og lagði Viðey RE til í verkefnið. Togað var með opið troll eða fráleyst í nokkrum tilfellum og Fiskgreinir var þá notaður til að greina hvaða fór í gegnum trollið.

Hafrannsóknastofnun segir að of snemmt sé að tala um niðurstöður úr þessum leiðangri, en ljóst sé „að þegar gullkarfi hnappast á gotstöðvar gæti verið færi á að bergmálsmæla hann, ef vilji er til að þróa tækni og aðferðir, og búa út skip til leiðangurs.“

Tilraunin gekk meðal annars út á það að bera saman afla sem kom í botnvörpu og bergmálsmælingar sem gerðar voru samtímis. Í staðinn fyrir að veiða karfann alltaf í botnvörpuna, þá var gripið til þess ráðs í sumum tilfellum að toga með opinn poka en nota Fiskgreini til þess að fylgjast jafnóðum með því sem kom inn í pokann.

„Um er að ræða myndavélabúnað sem settur er í trollið aftarlega á belg og tekur myndir af innkomu og sýnir hana jafnharðan. Markmiðið er að geta greint fiska sem fara í gegn til tegundar og stærðarmæla þá nánast um leið,“ segir í frásögn Hafrannsóknastofnunar.

Það er fyrirtækið Stjörnu-Oddi sem hefur þróað Fiskgreini meðal annars í samstarfi við Hampiðjuna og Hafrannsóknastofnun með styrk frá Tækniþróunarsjóði, en af hálfu Hafrannsóknastofnunar hefur Haraldur Arnar Einarsson fiskifræðingur haldið utan um verkefnið.

Haraldur segir tvær útgáfur hafa verið þróaðar, önnur er öflugri og verður notuð í vísindaskyni en hin er meðfærilegri og hugsuð til notkunar á fiskiskipum.

„Við erum komnir allvel á veg með þetta. Síðasti hlekkurinn í þessari verkefnalotu verður núna í haust þar sem við ætlum að prófa þennan vísindahluta, sannreyna hversu vel það virkar og safna meiri gögnum. Þetta er alveg að virka.“

Sér möguleikana

Sigurður Þór segir leiðindaveður hafa verið til trafala í upphafi leiðangurs.

„Við vorum of bráðir að fara út kannski því skilyrði voru ekki góð til bergmálsmælinga í upphafi, en leiðangrinum voru settar ákveðnar tímaskorður.

Þetta séu samt bara upphafsathuganir.

„Ég sé möguleika í þessu, en það þarf meiri yfirlegu á þessum slóðum. Við þyrftum að vera þarna allan sólarhringinn til að geta fylgst með lóðréttri hreyfingu karfans, en eins og sjómenn vita er mikil dægursveifla í aflabrögðum á karfaveiðum. Litli karfi virðist líka vera vaxandi stofn og okkur sýndist að megnið smákarfanum sem við sáum væri litli karfi. Það voru gjótandi hrygnur þarna með sömu einkenni og 10 til 20 cm stærri gullkarfahrygnur,“ segir Sigurður Þór.

Torfufiskur

Töluverð óvissa hefur verið í stofnmati gullkarfa undanfarin ár, að því er fram kemur í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.

„Gullkarfi er torfufiskur og því fæst stærsti hluti hans í fáum, stórum togum sem leiðir til tilviljanakenndra sveiflna í vísitölum milli ára. Aldursgreindur afli sýnir mjög litla nýliðun, sem er í samræmi við upplýsingar úr stofnmælingum,“ segir í nýjustu ráðgjöfinni um gullkarfaveiðar.

„Málið er að þegar karfi er í hrygningu,“ segir Haraldur, „gjarnan uppi á hólum eða í brekku eða einhverju slíku, þá er það þannig að þú getur verið að fá 30 tonn á jafnvel fimm mínútum. Það er eitthvað sem sjómaðurinn vill alls ekki fá en Fiskgreinirinn gaf okkur tækifæri til að toga inn í þessum þéttleika. Við vorum þá bara með pokann opinn og gátum sannreynt að þarna var mikið af gullkarfa og líka mikið af litla karfa og eitthvað af öðrum tegundum.“

Eitt skref í einu

„Okkur vantar bara meiri gögn. Við þurfum að taka fullt af vídeói og kenna gervigreindinni að þetta er karfi. Þessi fiskur er karfi og þessi fiskur er litli karfi, og við þurfum að segja tölvunni jafnvel þúsund sinnum. Þegar það er komið þá getur hann greint þetta sjálfur og mælt og þá færðu upp á skjáinn: karfi og þetta er lengdardreifingin.“

Hann segir þetta vera langtímaverkefni, því að markmiðið sé að á endanum verði hægt að velja sjálfkrafa með tölvubúnaði hvaða fiskur á að koma í trollið.

„Ef þú ætlar bara að veiða ufsa en engan karfa, þó það sé fullt af karfa á veiðislóðinni, þá síarðu bara karfann út með stýrðu hliði og tekur bara ufsann. Þetta er framtíðin, en það eru nokkur ljón á leiðinni. Þótt fólk haldi að gervigreindin labbi af stað og taki yfir heiminn, þá er það ekki alveg þannig. Við þurfum að komast á sjó og safna gögnum, og það þarf að gerast smátt og smátt. Við einbeitum okkur auðvitað að megintegundum fyrst, og svo verður í framtíðinni hægt að bæta fleiri tegundum við. Það þarf að taka tækniskrefin eitt og eitt í einu, og byggja ofan á það. Átta sig á því hvert maður ætlar. Það þýðir ekkert að éta fílinn í einum bita.“