Vinnsla á þorski og ýsu fer að verulegu leyti fram á suðvesturhorni landsins, samkvæmt ítarlegri samantekt sem birtist í nýjasta tölublaði Fiskifrétta.
Af þeim 145 þúsund tonnum af þorski sem tekin voru til vinnslu innanlands á árinu 2009 var langmest unnið á Suðurnesjum, um 38 þúsund tonn, eða um 26% af landvinnslunni. Norðurland eystra er í öðru sæti en þar voru unnin um 30 þúsund tonn af þorski, eða 20% af vinnslu í landi.
Verulegur hluti af þeirri ýsu sem tekin er til vinnslu innanlands er unninn á höfuðborgarsvæðinu. Þar voru unnin um 14.600 tonn í fyrra, eða tæp 36% af innanlandsvinnslunni.
Suðvesturhornið, þ.e. höfuðborgarsvæðið og Suðurnesin saman, er mjög sterkt í fiskvinnslu. Um 36% af öllum þorski, sem tekinn er til vinnslu innanlands, er unninn á suðvesturhorninu og mun hærra hlutfall í ýsu, eða 47,4%.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.