Ný rannsókn leiðir í ljós allt að þau svæði í höfunum, þar sem súrefni er af afar skornum skammti, eru nú fjórum til tíu sinnum stærri en áður þekktist.

Mælingar benda til þess að súrefnisstyrkur sé víða á strandsvæðum orðinn það lítill að lífverum í hafinu stafi hætta af og skortur verði á næringarefnum.

Rúmlega tuttugu vísindamenn skýra frá þessari rannsókn sinni í grein í nýjasta hefti vísindatímaritsins Science.

„Súrefnisþurrð,“ segir í greininni í Science, „er ein af veigamestu breytingunum sem nú eiga sér stað í hafinu.“

Höfin verða, að sögn höfunda greinarinnar, fyrir æ meiri breytingum af mannavöldum, en það gerist að hluta vegna hlýnunar andrúmsloftsins og aukins magns koltvísýrings en einnig vegna losunar næringarefna út í höfin. Þar með verða einnig breytingar á því hvar og hvenær næringarefni er að finna í höfunum.

Til skemmri tíma litið getur þessi þróun skilað af sér auknum aflabrögðum þar sem súrefnisskorturinn hrekur fiskinn upp að yfirborði sjávarins. Það segir þó ekki alla söguna: „Til lengri tíma litið eru þessi skilyrði ekki sjálfbær og geta leitt af sér hrun vistkerfa, sem á endanum munu valda bæði félagslegum og efnahagslegum skaða.“

Súrefnisþurrð í höfunum er þannig enn eitt vandamálið sem taka þarf á vegna áhrifa mannlegra verka á heimshöfin, til viðbótar við súrnun hafsins, sem hefur meðal annars í för með sér eyðingu kóralla, og plastmengun sem hefur skaðleg áhrif á hvers kyns lífverur.

„Minnkun súrefnis í höfunum er á meðal alvarlegustu áhrifanna sem athafnir manna hafa á umhverfið á jörðinni,“ er haft eftir Denise Breitberg frá umhverfisrannsóknardeild Smithsonian-stofnunarinnar í Bandaríkjunum í frásögn, sem birtist á vef Scripps-haffræðistofnunarinnar við Kaliforníuháskóla í San Diego, en vísindamenn frá þessum tveimur stofnunum eru meðal höfunda rannsóknarinnar.

[email protected]